149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[17:31]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Anna Kolbrún Árnadóttir) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni kærlega fyrir yfirferð hans, sem var mjög góð. Ég hjó eftir því að hann talaði töluvert um mönnunarvanda í kerfinu og mér fannst hann einum of oft tala um mönnunarvanda hjúkrunarfræðinga. Að mínu viti þarf ekki svo marga hjúkrunarfræðinga á dvalar- og hjúkrunarheimili, það eru aðrar stéttir undir líka sem mér finnst mikilvægt að við gefum gaum. Það eru t.d. sjúkraliðar, félagsliðar, iðjuþjálfar, sjúkraþjálfarar, allar þessar hliðarstéttir og við getum nefnt fleiri og fleiri þætti. En þetta var samt mjög gott.

Ég velti líka fyrir mér að nú er búið að auka við fjölda þeirra sem geta sótt sér nám í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Háskólinn á Akureyri getur því miður ekki tekið við fleiri nemum og þetta hangir því allt einhvern veginn saman. Ég vil taka undir þau orð að við þurfum að greina þörfina, hreinlega.

Mér finnst líka hárrétt að segja að fjármálaáætlunin er ramminn. Eftir að fjármálaáætlun hefur verið lögð fram er hægt að fara í aðgerðaáætlun þegar maður veit úr hverju maður hefur að moða, ef ég get orðað það þannig.

En aðallega þetta, hvort hv. þingmaður sé ekki sammála mér um að við þurfum að líta til allra stétta og til greiningar á þörfinni.