149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[17:36]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Anna Kolbrún Árnadóttir) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er ágætt. Ef við byrjum á þessu vantar alveg klárlega skýrar forgangsleiðir, ef ég get orðað það þannig, hverjar þær eru og hvert við eigum að setja fjármagnið. Talað er um heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað, sem heldur síðan ekki vatni vegna þess að fólk kemst aldrei á heilsugæsluna og fer þar af leiðandi á bráðamóttöku því að þar fær það bót meina sinna fyrr. Ég held að það sé eiginlega kjarni málsins. Þess vegna lagði ég mjög mikla áherslu á það í minnihlutaáliti mínu að auka veg heilsugæslunnar og þá um allt land.

Ef ég fer aðeins yfir í hjúkrunarfræðingana enn á ný og það sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni með stöðuna á Landspítalanum vitum við að hjúkrunarfræðingar þar eru yfirborgaðir. Þrátt fyrir það er mikill skortur á hjúkrunarfræðingum og við getum því velt fyrir okkur hvort það sé ekki aðbúnaðurinn sem skiptir þar mestu máli, starfsaðstæður. Að þessu sögðu er ágætt að minnast þess að jafnlaunastaðallinn, eins góður og hann er, þá tekur hann ekki tillit til mismunandi stofnana. Það þýðir að hjúkrunarfræðingur á Landspítala mun alltaf vera yfirborgaður en hjúkrunarfræðingur á Suðurnesjum mun ekki hafa tækifæri til þess. Það er ekki hægt að jafna á milli stofnana. Það er það sem er stóra vandamálið, held ég. En það er margt annað.

En ég velti einu fyrir mér í lokin. Hv. þingmaður talar um að við viljum vita hvert fjármagnið fer. Það er örugglega alveg gefið að Landspítalinn er dýrasta úrræðið vegna þess að þar þurfa alltaf að vera til taks ákveðnir faghópar, sem gerir að verkum að það er dýrast að sækja þjónustu þangað inn. Ég hef stundum velt fyrir mér hvort að aðgreina eigi sjúkrahúsþjónustu Landspítalans frá bráðamóttöku Landspítalans, vegna þess að við erum að bítast um sömu stofurnar. Við erum að bítast um sama (Forseti hringir.) starfsfólkið og þetta eykur flækjustig.