149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[18:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmanni varð tíðrætt um mælanleg markmið sem við nefndarmenn í fjárlaganefnd erum einmitt að glíma mjög mikið við, markmið og mælikvarða og aðgerðir sem eru ekkert til þess að hrópa húrra fyrir í fjármálaáætluninni en eru þó mun fjölbreyttari en í heilbrigðisstefnunni. Jú, vissulega getur komið í aðgerðaáætlun það milliskref sem vantar, ekki bara aðgerðaáætlunin sjálf heldur líka mælanleg markmið.

En mig langaði til að spyrja hv. þingmann, eins og ég fjallaði um í ræðu minni, um matið á áhrifunum, hvort við höfum skoðað það nægilega vel. Það er sagt að mat á áhrifum þessarar þingsályktunartillögu kosti ekki neitt.

Það að setja svona fram svona stefnu og segja að kostnaðurinn komi fram í aðgerðaáætlunum seinna, og jafnvel ekki, aðeins sagt að þetta rúmist innan fjárheimilda ráðuneytisins seinna meir, er það raunhæft? Að pútta því verkefni seinna, í aðgerðaáætlun? Þarf ekki heildarkostnaðarramma í slíka stefnu, ef við horfum aðeins á þetta frá fjármálalegu sjónarhorni, í kringum fjármálaáætlun o.s.frv.? Við þurfum að taka mark á þessari stefnu í fjármálaáætlunum og við vitum nú þegar að það vantar 4,6 milljarða bara fyrir hjúkrunarheimilin fyrir 2023–2024. Kostnaðurinn er augljóslega einhver. Þarf ekki að vera skýrari heildarrammi strax hérna?