149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[18:14]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður talaði mikið um þá stefnu stjórnvalda að setja alla peningana í hið opinbera kerfi. En það er líka talað um í kaflanum Skilvirk þjónustukaup, með leyfi forseta, að:

„Sjúkratryggingar Íslands annist alla samningagerð um kaup á heilbrigðisþjónustu fyrir hönd ríkisins, hvort sem um er að ræða þjónustu opinberra aðila eða einkaaðila.“

Þarna er alla vega einhver glæta í því að heilbrigðisstarfsmenn þurfi ekki nauðsynlega allir að vera opinberir starfsmenn samkvæmt stefnunni, það er eitthvað.

Hugmyndaflug mitt fór aðeins af stað undir ræðu hv. þingmanns og mér datt í hug að það gæti verið mjög viðeigandi að vera með eitthvert símaforrit eða snjallforit, app eða því um líkt, þar sem hægt væri að kanna hvert maður ætti að fara. Heilsugæslan á að vera fyrsti viðkomustaður en við vitum alveg að það virkar ekki. En ef maður héldi að maður væri beinbrotinn eða væri með opinn skurð eða eitthvað svoleiðis myndi appið segja við mann: Farðu þangað. Það gæti þá átt við hvaða þjónustuaðila sem væri, opinbera þjónustuaðila eða einkarekna heilsugæslu eða annað, af því að Sjúkratryggingar sjá hvort sem er um greiðslur samninganna hvað það varðar, neytandinn er þegar búinn að greiða fyrir þjónustuna óháð því hver veitir hana.

Þegar allt kemur til alls er það kannski kerfið sem hv. þingmaður var að kalla eftir, þetta opinbera fjármagnaða kerfi, ef ég skildi hann rétt, en ekki endilega að borga þurfi beint úr vasanum eftir því hvern fólk er komið til að hitta.