149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

21. mál
[18:52]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Hér er Alþingi að fara að taka risastórt skref sem felst í því að við munum staðfesta þann þingvilja að samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks beri að lögfesta. Með þeirri lögfestingu verður Ísland eitt fyrsta landið í heimi til að lögfesta samninginn og mun það stórbæta réttindi fatlaðs fólks og öryrkja á Íslandi.

Markmið samningsins eru að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra, jafnframt því að efla og vinna að virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess. Mikilvægustu skilaboð samningsins eru að fatlaðir einstaklingar eigi að njóta fulls réttar á öllum viðurkenndum mannréttindum til jafns við aðra og fá að njóta sjálfstæðs lífs og einstaklingsfrelsis til jafns við aðra. Samningurinn er því mjög öflugt tæki í baráttunni fyrir fullum mannréttindum fatlaðs fólks.

Í íslenskri lagatúlkun þarf að lögfesta alþjóðasamninga ef þeir eiga að hafa bein réttaráhrif hér á landi. Þess vegna skiptir miklu máli að átta sig á muninum á lögfestingu alþjóðasamnings og fullgildingu hans. Samkvæmt íslenskri réttarskipan ekki hægt að beita samningnum með beinum hætti fyrir íslenskum dómstólum eins og hægt væri að gera með almenn lög nema samningurinn hafi verið lögfestur. Stangist ákvæði alþjóðasamnings sem hefur einungis verið fullgiltur, eins og hér hefur verið gert, á við íslensk lög víkja ákvæði samningsins. Að sjálfsögðu hafa mannréttindasáttmálar sem Ísland hefur fullgilt áhrif á lagatúlkun.

Herra forseti. Í nýlegum hæstaréttardómi, frá því í haust, var sérstaklega nefnt að þar sem Ísland hafi einungis fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en ekki lögleitt hann gætu dómkröfur í málinu ekki náð fram að ganga á grundvelli ákvæða samningsins. Þess vegna hefur þetta mjög mikla efnislega þýðingu, það skref sem við erum að taka, að lögfesta samninginn. Ég undirstrika að fullgilding er einfaldlega ekki nóg.

Fyrsta þingmálið sem ég lagði fram á Alþingi eftir að ég var kjörinn hingað á nýjan leik fyrir um tveimur árum var einmitt að leggja fram þetta mál ásamt fjölmörgum þingmönnum um að samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks ætti að lögfesta. Mér leiðist ekki að rifja upp að það vill svo til að síðasta þingmálið sem ég lagði fram áður en ég hætti á þingi 2009, fyrir tíu árum, og fékk samþykkt á Alþingi var að barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna bæri að lögfesta.

Ísland var líka eitt fyrsta landið í heimi til að lögfesta barnasáttmálann. Við höfum í raun einungis lögfest þrjá meginalþjóðasamninga og eru það barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, mannréttindasáttmáli Evrópu og EES-samningurinn. Og núna, herra forseti, verður samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks settur á þann sama stall.

Ég vil í lokin ítreka þakkir mínar til hv. þm. Guðjóns Brjánssonar, sem er framsögumaður nefndarálits velferðarnefndar. Sömuleiðis vil ég þakka velferðarnefndinni fyrir gott starf og þann þverpólitíska stuðning sem er á bak við þetta mál.

Að lokum undirstrika ég að þegar unnið verður að lögfestingu samningsins og aðlögun íslenskra laga að samningnum verði það gert í góðu og virku samráði við fatlað fólk, hagsmunahópa þess, sveitarfélög og fræðasamfélagið. Auðvitað er margt óunnið en það skiptir miklu máli að þetta mál sé unnið áfram í góðri samvinnu. Enn og aftur: Hér er Alþingi að taka sögulegt skref og setja Ísland á einstakan stað í heiminum með því að vera ein fyrsta þjóðin sem ákveður að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.