149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

21. mál
[18:57]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Þetta er gleðidagur fyrir margra hluta sakir og fyrir okkur fatlað fólk er þetta óborganlega mikill gleðidagur. Ég segi: Loksins, loksins. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson sagði hér á undan mér að við hefðum í rauninni siglt í gegnum lífið með okkar fatlaða fólk bara á fullgildingu samningsins um réttindi fatlaðs fólks. Nú loksins sjáum við fyrir endann á því að löggilda hann.

Hvers vegna höfum við dregið lappirnar í löggildingu samningsins? Jú, að vegna þess að hann kostar svolítið mikið. Það verður erfitt að neita okkur fötluðum um aðgengi. Það verður erfitt að setja okkur alltaf til hliðar og viðurkenna ekki um leið að við eigum rétt á því að taka þátt í samfélaginu eins og mögulegt er, að gera samfélagið þannig úr garði í kringum okkur að við getum lifað í því eftir bestu stöðu okkar líkamlega, andlega og alla vega. Þannig að núna, við löggildingu sáttmálans, þá er það alveg ótrúlegt.

Mig langar samt að leiðrétta ágætan hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson þegar hann segir að við séum brautryðjendur í löggildingu á sáttmálanum. Það eru aðeins tvær þjóðir í Evrópu sem hafa ekki löggilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Mér þótti það sárt þegar ég sótti skóla í Galway á vesturströnd Írlands fyrir þremur árum síðan, þar sem á hverju einasta ári er verið að kenna ákveðna þætti í samningnum, ákveðnar greinar samningsins um réttindi fatlaðs fólks, að þjóðin sem býður alltaf til þessarar árlegu skólavistar varðandi samninginn, var heldur ekki búin að löggilda frekar en við Íslendingar. Það var í rauninni athyglinnar virði.

Ég held bara, ef ég á að segja eins og er, að nú séum við komin á undan þeim, sem er náttúrlega gleðilegt. Þannig að ég trúi því að nú þegar þetta er orðið að veruleika muni fatlaðir á Íslandi njóta þess og fá að upplifa það hvernig það er að búa í samfélagi sem getur hreinlega ekki með nokkru lifandi móti, nema með því að brjóta lög, mismunað fólki vegna fötlunar. Þannig að enn og aftur: Til hamingju. Það er fallegt að sjá þegar við tökum svona þverpólitískt hvert utan um annað í jafn miklu réttlætismáli og samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er. Þannig að ég hlakka til að vera á græna takkanum þegar við fáum að greiða atkvæði.