149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

breyting á ýmsum lögum til innleiðingar á tilskipun (ESB) 2015/1794.

530. mál
[19:11]
Horfa

Frsm. velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til innleiðingar á tilskipun ESB um farmenn. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti. Engar umsagnir bárust um málið.

Frumvarpið felur í sér lagabreytingar sem nauðsynlegar eru til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um breytingu á tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins um farmenn. Markmið tilskipunarinnar er að farmenn geti nýtt sér að fullu rétt sinn til sanngjarnra og réttlátra vinnuskilyrða við hópuppsagnir og aðilaskipti á hafskipum og rétt til upplýsingamiðlunar og samráðs. Um er að ræða réttarbót fyrir farmenn sem gert er ráð fyrir að hafi hvorki áhrif á stjórnsýslu ríkisins né útgjöld fyrir ríkissjóð.

Nefndin leggur til nokkrar tæknilegar breytingar sem felast fyrst og fremst í samræmingu orðalags og fyrirsagna í þeim lögum sem frumvarpið snýr að. Breytingartillögur nefndarinnar hafa ekki efnisleg áhrif á frumvarpið.

Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingartillögum sem koma fram í þingskjalinu.

Hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Undir álitið rita hv. þingmenn Halldóra Mogensen formaður, Ásmundur Friðriksson, Ólaf Þór Gunnarsson framsögumaður, Andrés Ingi Jónsson, Sigurður Páll Jónsson, Guðmundur Andri Thorsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halla Signý Kristjánsdóttir og Vilhjálmur Árnason.