149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

straumar í alþjóðastjórnmálum.

[09:32]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Með leyfi:

„Evrópskir vinstri flokkar deila grundvallargildum um mannlega reisn, frið, algild mannréttindi og mikilvægi félagslegrar verndar. Þeir hafa barist gegn sveltistefnu og einkavæðingu nýfrjálshyggjunnar, krafist eftirlits með fjármagnsflutningum milli landa og lokunar á skattaskjólum og kallað eftir skattkerfi sem vinnur gegn ójöfnuði og aflar tekna til að fjármagna innviðauppbyggingu. …

Á tímum loftslagsbreytinga og efnahagslegs ójöfnuðar þarf að marka djarfa, framsýna og sameinandi stefnu með áherslu á félagslegt réttlæti, kynjajafnrétti, grænt hagkerfi og alþjóðlegar kerfisbreytingar.“

Þetta sagði hæstv. forsætisráðherra í nýútkomnu erlendu fræðiriti. Hún kallaði jafnframt eftir því að framsæknar hreyfingar og vinstri flokkar sameinist um að hrinda af stað róttækum, framsæknum og lýðræðislegum breytingum, pólitískum og félagslegum. Þótt vinstri flokka greini á um margt sé það skylda þeirra á viðsjárverðum tímum að vinna saman að því að leita lausna.

Ég er hjartanlega sammála hæstv. forsætisráðherra um að þetta þurfum við að gera til að skapa réttlátari, friðsælli og meira spennandi framtíð fyrir alla. Engu að síður valdi þessi sami ráðherra sjálf að mynda ríkisstjórn með íhaldssömum hægri flokkum og réttlætir í sífelldu samstarfið með því að tala um gildi málamiðlana og mikilvægi þess að skapa traust.

Spurningarnar eru því sáraeinfaldar: Getur hæstv. ráðherra á tveimur mínútum útskýrt þann eðlismun sem er á Íslandi og öðrum Evrópulöndum og hvers vegna hún telji að það þurfi annars konar flokkasamstarf og þar með önnur stjórntæki og aðrar aðgerðir til að leysa vandamál íbúanna hér á Íslandi en annars staðar í Evrópu?