149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

losun gróðurhúsalofttegunda.

[09:57]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Herra forseti. Auðvitað geta alltaf komið upp vandamál en ég held að við eigum að einbeita okkur að því að nálgast þessi mál sem verkefni. Þetta er stór áskorun sem við þurfum að takast á við í sameiningu og við leysum þau vandamál sem koma upp. (Gripið fram í.)

Hér er spurt: Hversu árangursríkar eru aðgerðirnar? Það er rétt að núna fer fram mat á því en ég vil benda á skýrslu Umhverfisstofnunar sem kom út í apríl eða maí sem bendir til þess að þrátt fyrir að ekki sé búið að taka tillit til nærri því allra aðgerða í skoðunum þeirra á aðgerðaáætluninni er samt að nást umtalsverður árangur árið 2030 miðað við það sem útreikningar þeirra sýna. Ég held að við séum algerlega á réttri leið og munum vonandi sjá síðar á árinu uppfærða áætlun þar sem við getum sett betur niður hverju hver og ein áætlun eða hópur af aðgerðum skilar þegar kemur að niðurskurði í losun, ef svo má að orði komast.

Og aftur (Forseti hringir.) ítreka ég að það er vilji minn að verja loftslagsfjármagnið eins og ég mögulega get.