Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

afnám krónu á móti krónu skerðingar.

[09:59]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Nú er búið að leggja fram frumvarp um breytingu á lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar, framfærsluuppbót og meðferð atvinnutekna. Þetta er frumvarp um að í staðinn fyrir að hafa krónu á móti krónu skerðingu verður skerðingin 65 aurar á móti krónu. Ég segi fyrir mitt leyti: Jú, maður á að þakka fyrir hungurlúsina sem kemur en hins vegar hef ég sagt: Þetta er fjárhagslegt ofbeldi. Í staðinn fyrir að sparka þrisvar í öryrkja á bara að sparka í þá tvisvar. Það er ekki ásættanlegt.

Hitt er annað mál að 65 aurar á móti krónu — var það loforð Framsóknarmanna fyrir síðustu kosningar? Var það loforð Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins? Var það ekki það sem allir lofuðu, út með krónu á móti krónu strax? Síðan er önnur staðreynd í þessu máli. Það er komið á hreint að það á að bæta við 4 milljörðum á næsta ári. Það á sem sagt að viðhalda þessu. Það sem er ljótast af öllu ljótu í þessu er að þau ætla af góðmennsku sinni að taka 50%. Skerðingarnar minnka um 50% á þá sem eru fæddir fatlaðir og eru þar af leiðandi ekki vinnufærir en þeir reyna að bjarga sér. Þetta er uppbót vegna þess að þetta fólk er svo illa statt. Þeir geta ekki tekið það burtu.

Þá spyr ég ráðherra: Hvenær á að taka þetta í burtu að fullu eða stendur það ekki til? Ég vil að hann upplýsi okkur um það hvort eigi að taka krónu á móti krónu skerðingu burt eða hvort ekki eigi að gera það þannig að það sé alveg á hreinu og fólk þarna úti viti hvað er í gangi. Svo eru 25.000 kr. sem eldri borgarar fengu upp í lífeyrissjóð. Það er ekki til öryrkja. Þarna er að stærstum hluta um að ræða konur sem verið er að hirða lífeyrissjóðinn af. Er þetta ný stefna um jafnrétti?