149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

tilkynning.

[11:03]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil gjarnan fá að greiða atkvæði en þá þarf ég eiginlega að vita um hvað eru greidd atkvæði. Erum við að greiða atkvæði um að funda fram á morgun þangað til næsti þingfundur hefst, sem mér skilst að eigi að hefjast kl. 10 í fyrramálið? Eða erum við að greiða atkvæði um það að funda til miðnættis? Um þetta hafa fjölmargir hv. þingmenn spurt og engin svör fengið. Af hverju getum við ekki fengið upplýsingar um það um hvað við erum að fara að greiða atkvæði?

Þingmenn skipta með sér verkum og það hefur verið talað um taka 16. mál hugsanlega fram fyrir enda er það mjög brýnt verkefni og harla lítið umdeilt myndi ég halda. Það væri hægt að afgreiða það hratt og vel inn í nefnd, enda getur fátækt fólk ekki beðið öllu lengur eftir örlitlu réttlæti.