149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

stéttarfélög og vinnudeilur.

770. mál
[12:27]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við greiðum hér atkvæði um lagabreytingu sem felur það í sér að Félagsdómur þurfi ekki lengur að vera staðsettur í höfuðstað landsins. Ég fagna mjög þessu máli og mig langar af því tilefni jafnframt að benda á að við gerðum breytingartillögu við lög um dómstóla í febrúar 2017 þar sem við samþykktum bráðabirgðaákvæði um að Landsréttur gæti haft aðstöðu utan Reykjavíkur. Það var þá þó eingöngu fram til ársins 2022.

Ég vona að niðurstaðan verði sú að við lögum það svo að það verði ekki lengur bráðabirgðaákvæði því að ég held að það fari ágætlega á því að stofnanir séu staðsettar utan Reykjavíkur, og jafnvel utan 101.

Það má líka benda á það að í stjórnarskrá okkar segir í 12. gr. að forseti hafi aðsetur í Reykjavík eða nágrenni en í 13. gr. skulu ráðuneytin hafa aðsetur í Reykjavík.

Virðulegur forseti. Ég vil bara minna á að það er líf fyrir utan Reykjavík. Það er líka líf fyrir utan 101 Reykjavík og það er bara býsna gott líf.