149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

stéttarfélög og vinnudeilur.

770. mál
[12:28]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Í nefndaráliti samþykkti ég þessa breytingu með fyrirvara. Sem landsbyggðarþingmaður fagna ég því auðvitað stöðugt þegar Alþingi fjallar um lagabreytingar sem stuðla að því að opinberar stofnanir verði settar niður utan Reykjavíkur. Þar eru mörg tækifæri ónýtt.

Hér er um að ræða flutning Félagsdóms eins stutt út fyrir borgarmörkin og kostur er, eftir því sem mér skilst, en í gildandi lögum segir að hann skuli vera staðsettur í Reykjavík. Ég vil vekja athygli á því að víða eru ágætar aðstæður, á Suðurnesjum, á Selfossi eða Akranesi eða í Borgarnesi, og radíusinn getur stækkað.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess líka að hvetja ríkisstjórnina til að skoða vel og með opnum hug flutning stofnana út á land í þeim tilvikum þar sem það er raunhæft og enn frekar að efna loforð sín um að fjölga störfum án staðsetningar í ljósi nútímatækni. Þar eru engar hindranir og óplægður akur.