149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda.

19. mál
[12:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég styð tillöguna, en mig langar líka að nefna, vegna þess að hér hefur verið minnst á Fjölmenningarsetrið á Ísafirði sem er ágætisstofnun og sinnir mjög mikilvægu og þörfu verkefni, að sérstaklega er hætt við því að útlendingar sem koma til Íslands einangrist, bæði félagslega og gagnvart öllum réttindum og skyldum sem eru til á Íslandi. Ástæðan er sú að yfirleitt tala þeir ekki tungumálið, þekkja ekki marga og koma frá öðrum svæðum þar sem ekki gildir hin sama svokallaða „almenna skynsemi“ og í íslensku samfélagi. Það eru hlutir hér sem Íslendingum þykja augljósir sem eru ekki augljósir þegar maður er nýr á landinu. Þetta þekki ég sem útlendingur sjálfur í öðrum löndum og ábyggilega fjölmargir hér inni.

Mér finnst mikilvægt að við höfum í huga þegar við ræðum um stofnanir og staðsetningar þeirra að þær verða að vera nálægt skjólstæðingnum. Það er langmikilvægasta atriðið. Það er ekki í sjálfu sér mikilvægt atriði hvaða stofnun nákvæmlega sinnir hlutverkinu, svo lengi sem því er vel sinnt og sinnt nálægt (Forseti hringir.) þeim skjólstæðingum sem stofnuninni er ætlað að aðstoða.