149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[15:48]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sanngirni, réttlæti, forsendubrestur. Þetta eru hugtök sem við erum búin að heyra ansi oft upp á síðkastið. Nú horfum við upp á breytta fjármálastefnu og ekki er vanþörf á en það sem aðallega brennur á mér varðandi hana: Hver á að borga brúsann? Það kemur í rauninni ekki fram. Ég gleðst yfir því að hæstv. fjármálaráðherra hefur þegar boðað að sennilega muni hann fresta lækkun bankaskatts. Það eru nú bara 7 milljarðar, en ég vildi gjarnan sjá hverjir eiga að borga brúsann, þessa 40–46 milljarða á næstu fimm árum ef þeir hlutir ganga eftir.

Mig langar að nefna eitt. Síðasta föstudag féll dómur í Landsrétti sem mun kosta ríkissjóð að óbreyttu 5 milljarða kr. fyrir utan vexti og vaxtavexti og vexti líka af þeim frá 1. janúar 2017. Ég hef ekki heyrt minnst á þetta. Ég hef eiginlega ekki heyrt minnst á það neins staðar. Það er eins og allir forðist að ræða málið. Auðvitað er ekki búið að áfrýja dómnum til Hæstaréttar, enda vita allir sem vita vilja að það verður afskaplega erfitt að setja slíkt mál fyrir Hæstarétt sem Landsréttur hefur í rauninni gjörsamlega neglt inn í réttarríkið. Landsréttur hefur tekið á afturvirkni íþyngjandi laga sem ólögmætum, alveg hreint, og Landsréttur hefur líka verndað í dómi sínum eignarréttarákvæði stjórnarskrár.

Á hverjum munu öll þau aukaútgjöld lenda þegar upp er staðið? Mun hæstv. fjármálaráðherra sækja þetta fjármagn þangað sem það er fyrir eða mun þetta hugsanlega halda áfram að bitna á þeim sem síst skyldi? Enn þá stendur eftir stór hluti í samfélaginu, allt of margir sem fá útborgað undir 220.000 kr. í peningum í framfærslu mánaðarlega.