149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[17:20]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er spurningin um varfærni. Við erum að glíma við hagspár sem við vitum mætavel að eru ónákvæmar. Við vitum yfirleitt að það eina örugga við þær er að þær munu ekki ganga eftir. Við vitum líka að hagspár hafa tilhneigingu til að vanmeta bæði efnahagsuppgang og niðursveiflu. Hagvöxtur hefur tilhneigingu til að verða kröftugri en hagspá gerir ráð fyrir þegar við erum í uppsveiflu, enda er íslenska hagkerfið eitt það sveiflukenndasta í heimi. Að sama skapi hefur niðursveifla tilhneigingu til að verða dýpri en hagspár gerðu ráð fyrir. Við höfum sjaldnast spáð fyrir um samdrátt. Hann kemur bara og verður þá yfirleitt nokkuð skarpur. Að sama skapi verður hagvöxtur kröftugri en við spáum.

Þá veltir maður fyrir sér: Er ekki mikilvægt að stjórnvöld séu miklu varfærnari í uppsveiflunni og skilji þá meiri afgang eftir sem getur um leið skapað svigrúmið sem oft er kallað eftir til útgjaldaaukningar þegar skyndilega dregst saman, eins og gerist nú yfirleitt í þessu hagkerfi?