149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[17:31]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir með síðasta ræðumanni, það er lágmarkskrafa að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sitji í salnum þegar við ræðum endurskoðaða fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar til ársins 2022, hvorki meira né minna. Það er mikið undir. Þegar við ræðum þetta mikilvæga plagg, sem á að vera grunnur fyrir fjármálaáætlun og fjárlagafrumvörp næstu ára lætur hæstv. ráðherra sig vanta í salinn. Ekki nóg með það heldur eru afskaplega fáir hv. þingmenn sem styðja ríkisstjórnina í salnum. Þeir koma ekki hingað upp til að ræða við stjórnarandstöðuna um þetta mikilvæga plagg. Kannski treysta þeir sér ekki til þess, alla vega eru afar fáir hv. stjórnarþingmenn í salnum.