149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[17:32]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Maður verður samt að hrósa hv. formanni fjárlaganefndar fyrir að taka þátt í umræðum hér og áður hefur ráðherra komið í andsvör við fyrstu tvo ræðumenn. En það gerist gjarnan þegar ég fer í ræðu að þá flýr hæstv. fjármálaráðherra, lætur ekki sjá sig í þingsalnum. Það er gaman að læra það smám saman eftir því sem fram líður. Gleraugun hans voru á borðinu, kannski hjálpar það honum eitthvað að sjá hérna.

Ég ætlaði að minnast á það í ræðu minni áðan en nota tækifærið til þess núna að ég sakna þess að stjórnarþingmenn flytji fjármálastefnuna fyrir okkur og útskýri sjónarmið sín, rökin fyrir því að endurskoða þurfi fjármálastefnuna og hver sýn þeirra er á að endurskoða fjármálastefnu til næstu ára. Svo að ég nýti tækifærið enn og aftur þá spyr ég: Af hverju er fjármálastefnan ekki til næstu fimm ára, af hverju nær hún yfir fortíðina?