149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[17:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég kannast ekki við þetta hagkerfi sem hv. þingmaður er að lýsa. Það er alveg ótrúlegt að menn komi og segi: Heyrðu, þetta er bara sama og gerðist fyrir tíu árum. Við erum að gera sömu mistökin aftur. Bíddu, hver er munurinn? Horfum á grundvallarstærðir. Eigum við að ræða viðskiptajöfnuð? Við vorum 25% í mínus þá en við höfum verið með afgang á viðskiptajöfnuði undanfarin ár upp á 715 milljarða. Sér hv. þingmaður ekki muninn? Hvað með að taka hreina stöðu þjóðarbúsins gagnvart útlöndum sem var neikvæð um 5% 2015 en er nú jákvæð um 597 milljarða? Hafa menn ekki tekið eftir því að hér hefur verðlag verið stöðugt? Hér er atvinnustig nokkuð hátt þó að við höfum fengið skell með samdrætti í ferðaþjónustu. Að gera einhvern samanburð við hagkerfið eins og það var er auðvitað ótrúlegt. Þetta er allt annað hagkerfi (Forseti hringir.) með 2 milljónum ferðamanna. Það verða áskoranir þegar (Forseti hringir.) koma sveiflur í einstakar atvinnugreinar. En við komumst í gegnum það.