149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[17:46]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið. Auðvitað er það alveg rétt. Hagkerfið hefur tekið miklum breytingum. Það er ekki að þakka opinberri stefnu stjórnvalda. Það er einfaldlega vegna þess að hér kom algerlega ný útflutningsgrein sem jók verulega útflutningstekjur okkar og skilaði okkur öllum þeim góða viðskiptajöfnuði sem hæstv. ráðherra lýsir. Það breytir því ekkert að sömu mistökin hafi verið gerð í hagstjórninni af hálfu ríkisstjórnar eða þeirra sem hafa farið með ríkisfjármálin hverju sinni. Það er alveg sama útgjaldaaukningin inn í þennan vöxt sem hefur kynt hagvöxtinn, aukið enn frekar ójafnvægi í hagkerfinu og á endanum erum við að taka út þá leiðréttingu sem alltaf hefur fylgt í kjölfarið. Það breytir því auðvitað ekki að það er margt mjög gott og sterkt undirliggjandi í hagkerfinu. En ég ítreka það sem ég sagði áður í andsvörum við hæstv. ráðherra: Heimilin lærðu af hruninu, atvinnulífið lærði af hruninu. Ríkið lærði ekkert af hruninu og hefur gert sömu hagstjórnarmistökin aftur.