149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[17:53]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég átta mig ekki alveg á hvert hv. þingmaður er að fara. Er hann að leggja til að við hækkum skatta? Já eða nei? Mér heyrðist hann nefnilega gefa í skyn að það væri leiðin sem Viðreisn ætlar að fara, þ.e. að hækka skatta. (Gripið fram í.) Ég stóð í þessum ræðustól árið 2017 að ræða fjárlagafrumvarp þáverandi fjármálaráðherra. Þar var lagt til að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu. Hv. þingmaður, manstu eftir því? (ÞorstV: Já, ég man eftir því.) Já, hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu. Ég mótmælti því og varaði eindregið við að slíkt yrði gert vegna þeirra áhrifa sem það gæti haft, ekki síst á ferðaþjónustuna [Kliður í þingsal.] úti á landi. Það er alveg öruggt í mínum huga, herra forseti, að þar hafði ég rétt fyrir mér en hv. þingmaður rangt.

(Forseti (ÞorS): Forseti biður þingmenn um að hætta hljóðskrafi en bendir á að mælendaskrá er opin.)