149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[17:54]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir orð forseta að það væri gaman að sjá stjórnarþingmenn á mælendaskrá en þeir virðast svo stoltir af þessari stefnu að þeir kjósa að tjá sig ekki um hana. Svo ég svari hv. þm. Óla Birni Kárasyni: Nei, ég er ekki að boða skattahækkanir, þvert á móti. Ég syrgi það mjög t.d. að hætta eigi við lækkun á sérstökum bankaskatti, af því að það er enginn annar sem greiðir þann skatt en allur almenningur og fyrirtæki í þessu landi. Á sama tíma og Seðlabankinn er að lækka vexti til að örva hagkerfið hættir ríkisstjórnin við að lækka bankaskattinn sem hefði skapað nauðsynlegt súrefni inn í atvinnulífið og til heimilanna. Það þykir mér miður.

Ég er einfaldlega að benda á það ábyrgðarleysi ríkisstjórnarinnar við stjórn ríkisfjármálanna að ætla að gera hvort tveggja í senn, að auka útgjöldin jafn mikið og raun ber vitni og þykjast komast upp með það að þurfa ekki að hækka skatta ofan í það. Það er það sem Sjálfstæðisflokkurinn mun þurfa að standa skil á fyrir næstu kosningar, hvernig hann ætlar að skila ríkissjóði í einhverjum bærilegum afgangi eða a.m.k. hallalausum inn næstu kosningar.

(Forseti (ÞorS): Forseti átelur hljóðskraf úr hliðarsal.)