149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[17:55]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég og hv. þingmaður getum oft verið sammála en við erum þrátt fyrir það ekki í sama flokki. Mig langar aðeins að fá frekari svör og skýringar eða skoðun hv. þingmanns á því hvert hann telur vera hlutverk ríkisins á þessum tíma hagsveiflunnar, hvort hann aðhyllist svokallaða hagfræði Keynes um að ríkið hafi ákveðnu hlutverki að gegna til að mæta niðursveiflu með sveiflujafnandi aðgerðum með því að m.a. auka opinbera eftirspurn þegar eftirspurnin dregst saman hjá einkaaðilum. Í annan stað væri fróðlegt að heyra afstöðu þingmannsins til skattamála. Telur hv. þingmaður forgangsmál núna að lækka bankaskattinn eins og staðan er í dag? Ég veit að þetta er sérkennilegur skattur. Ég velti fyrir mér hvort þetta sé rétti tímapunkturinn til að afsala ríkinu tekjum upp á 8 milljarða árlega eða 18 milljarða á næstu fjórum árum, eins og núgildandi fjármálaáætlun gerir ráð fyrir.