149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[17:56]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Já, ég sjálfur aðhyllist keynesíska hagstjórn. Ég tel æskilegt að það sé svigrúm til að auka við sérstaklega fjárfestingar hins opinbera á tímum sem þessum. Það er mjög mikilvægt að örva hagkerfið á tímum sem þessum með auknum fjárfestingum. Það þarf að gæta þess, sem er auðvitað vandi þessarar ríkisstjórnar, að þorri útgjaldaaukningar ríkissjóðs núna er í grunnrekstri ríkisins en ekki fjárfestingum. Það væri æskilegra að meiri áhersla væri sett á auknar fjárfestingar og gætt meira aðhalds í grunnrekstri. Ég tel hins vegar lækkun á skatti eins og bankaskattinum mjög í anda keynesískrar hagstjórnar líka, hefur sömu áhrif í raun, af því að það eru á endanum viðskiptavinir bankanna sem greiða þann skatt með hærri vöxtum. Það hefur verið dregið ágætlega fram, m.a. í hvítbók um fjármálakerfið, að við erum með óvenju hátt gjaldstig á fjármálakerfinu okkar og við erum með óvenju mikinn vaxtamun í fjármálakerfinu okkar líka. (Forseti hringir.) Það er a.m.k. hálft prósent í vaxtamun sem skýrist eingöngu af séríslenskum kröfum og álögum á bankakerfið.