149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[17:59]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er áhugaverð spurning hjá hv. þingmanni. Í fyrsta lagi er alveg augljóst að launaforsendur í þeirri fjármálaáætlun sem við höfum haft til umfjöllunar í fjárlaganefnd eru algerlega óraunhæfar, sér í lagi þegar horft er til lífskjarasamninganna. Þar eru umtalsvert meiri launahækkanir en gert er ráð fyrir í fjármálaáætlun. Væntanlega ætlar ríkissjóður þá að grípa til uppsagna til að mæta hagræðingu á móti því svigrúmi sem skapað er til launahækkana í áætluninni. Sú hagræðing eða hagræðingarþörf hefur aukist með samningunum sem voru gerðir eftir að áætlunin kom fram. Það er líka alveg ljóst að þetta mun hafa veruleg áhrif á sveitarfélögin og sveitarfélögin sjálf hafa varað við því að hækkun launakostnaðar sé miklum mun meiri en tekjuaukning af útsvari út af samsetningu starfsmanna þeirra. Ég held að þetta muni verða verulegur kostnaðarauki fyrir sveitarfélögin og ég held að við eigum að gæta okkar að fagna samningunum ekki of snemma. Það er t.d. alveg ljóst að þeir munu verða mjög kostnaðarsamir fyrir ferðaþjónustuna sem glímir við mjög erfið rekstrarskilyrði núna, glímir bæði við (Forseti hringir.) samdrátt og taprekstur að einhverju marki og tekst á við mjög kostnaðarsama samninga. Ég held að það muni hafa verðbólguáhrif inn í hagkerfið.