149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[18:01]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni Þorsteini Víglundssyni prýðisræðu og get verið honum um margt sammála þegar kemur að þeirri þróun ríkisfjármála sem hv. þingmaður kom inn á, þann útgjaldavöxt sem við höfum verið að horfa á á liðnum misserum og lengra og svo því aðhaldsstigi sem hefur verið gagnrýnt, m.a. af fjármálaráði, eða litlu aðhaldsstigi sem speglast í lágum afgangi. Hv. þingmaður kom jafnframt inn á það að við höfum tilhneigingu til að ofmeta uppsveifluna og vanmeta niðursveifluna. Er þá ekki einmitt skynsamlegt, standandi frammi fyrir brostnum forsendum og þeirri áskorun að ýkja ekki niðursveifluna, að halda í arðbærar fjárfestingar eins og við höfum í raun og veru svigrúm (Forseti hringir.) til að gera og er augljóslega stefnt að hér?