149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[18:02]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar andsvarið og þakka líka dugnað hans í andsvörum í umræðunni, það er mjög virðingarvert af formanni fjárlaganefndar hversu atorkusamur hann er í umræðunni. Vandamálið þegar kemur að þessu klassíska, að ríkisfjármálin ýki ekki niðursveifluna með samdrætti, er að lausnin á því hefst auðvitað í uppsveiflunni, þ.e. að útgjaldavöxturinn sé ekki svo mikill að ríkið sé nauðbeygt til að draga úr þegar inn í niðursveifluna er komið. Þá má eiginlega segja: Það er of seint að byrgja brunninn þegar barnið er dottið ofan í og það hefur gerst hér. Það er búið að auka útgjöldin mjög mikið. Ég tel þau ekki standast til lengri tíma litið við óbreytt skattstig og þar af leiðandi muni stjórnvöld væntanlega verða nauðbeygð til að draga úr útgjöldum akkúrat þegar við þyrftum á örvun að halda. Það er, held ég, það sem við þurfum að horfa til þegar við tökum til við að meta árangurinn af lögum um opinber fjármál og endurskoða þau að einhverju marki, hvernig (Forseti hringir.) við getum fest þetta betur í sessi til að koma í veg fyrir að við séum alltaf að endurtaka sömu mistökin, hagsveiflu eftir hagsveiflu.