149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[18:03]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Við erum nokkurn veginn sammála í þessu. Ég vil meina að við höfum farið varlega þegar við horfum á svigrúmið sem hefur skapast af þeirri áherslu á að greiða niður skuldir hraðar en skuldareglan segir til um. Þá komum við að gildum til framtíðar litið, sjálfbærni og stöðugleika. Við verðum að passa að ýkja ekki niðursveifluna, um það erum við sammála, ég og hv. þingmaður, og halda í arðbærar fjárfestingar. Við erum í færum til þess vegna þess að við höfum skapað svigrúm til þess. Þrátt fyrir að vera með, í hlutfalli af verðmætasköpuninni, 1% lágan afgang, þá gleypir hann þessa snöggu niðursveiflu að þremur fjórðu hlutum til. Við erum í færum til að takast á við niðursveifluna og passa að ýkja ekki sveifluna frekar og að fjármálastefnan vinni með hagkerfinu.