149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[18:04]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að um þetta meginmarkmið séum við hv. þingmaður hjartanlega sammála. Ég hefði viljað sjá stöðu þar sem við hefðum gætt betur að okkur í uppsveiflunni, ekki farið í jafn mikla, getum við sagt, útbelgingu á grunnrekstri ríkisins á undanförnum árum til þess einmitt að vera í enn betri færum til að örva fjárfestingu til muna. Það er alveg rétt að skuldastaða ríkissjóðs er góð, það hefur verið greitt inn á lífeyrisskuldbindingar. Það er þó rétt að muna að við erum engu að síður með ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar sem slaga hátt í 700 milljarða og eru auðvitað baggi á ríkissjóði, á hann þarf að ráðast af festu líka. En við þurfum að læra af mistökunum. Ég hygg að við höfum ekki gert það í þessari lotu en vonandi tekst okkur að draga lærdóm af því til að endurskoða lögin. Ég held að við verðum að setja aðeins aðhaldssamari gjarðir á ríkisfjármálin en er að finna í núverandi lögum.