149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[18:16]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og brýningu um að hér þurfi að gera talsvert betur í málefnum öryrkja og ég vil hrósa hv. þingmanni sem þreytist seint á að benda á að við getum gert miklu betur þegar kemur að kjörum öryrkja. Það er algjört hneyksli að mínu mati, herra forseti, að tíunda ríkasta land í heimi, sem Ísland er, skuli ekki geta gert betur gagnvart þeim hópi. Um það bil 21.000 öryrkjar eru á Íslandi og þetta er í mörgum tilfellum einn fátækasti hópur landsins. Við sjáum að um helmingur öryrkja er með tekjur undir 270.000 kr. fyrir skatt. Helmingurinn er þarna undir og 70% öryrkja eru með tekjur undir 300.000 kr. fyrir skatt. Þetta er ótrúlega slæm birtingarmynd á ríku samfélagi.

Hér sjáum við að ríkisstjórnin ætlar að setja 4 milljarða, sem er bara einn þriðji af því sem kostar að afnema svokallaða krónu á móti krónu. Ég skil ekki af hverju við getum ekki forgangsraðað fjármunum ríkisins með þeim hætti að það óréttlæti sem felst í krónu á móti krónu skerðingu sé einfaldlega afnumið. Ef við myndum setja 10 milljarða til viðbótar myndum við ná því skrefi. 10 milljarðar eru há upphæð en þetta er engu að síður einungis 1% af ríkisútgjöldunum og ríkisstjórnin tímir ekki að setja það í. Þetta eru 0,3% af landsframleiðslu sem vantar til viðbótar til að afnema krónu á móti krónu. Mig langar í þessu andsvari mínu að fá vangaveltur hv. þingmanns um hvort ekki sé löngu tímabært að taka þetta skref. Peningarnir eru svo sannarlega fyrir hendi og hafa verið það í mörg ár, herra forseti.