149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[18:18]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrirspurnina. Jú, það segir sig sjálft að króna á móti krónu skerðingin er arfavitlaus vegna þess að hugsunin er svo röng. Við erum með öryrkja sem eru með sérstaka uppbót og með aldurstengdu uppbótina og þetta eru uppbætur sem skerðast krónu á móti krónu. Það heimskulegasta sem við gerum er að við þurfum í kerfinu sem við erum með að borga þessum einstaklingum mánuð eftir mánuð, en hvað segjum við þá? Sérstaka uppbótin og aldurstengda uppbótin er svo há að fólk þarf að fá rosalega miklar tekjur ef það fer út á vinnumarkaðinn til að það skili sér eitthvað. Það kostar að komast í og úr vinnu. Þá fer fólk ekki. Og hvað þýðir það? Það þýðir að ríkið fær ekki skatttekjur á móti. Það segir sig sjálft. Ríkið verður hvort sem er að borga þetta og það hlýtur að vera hagkvæmara fyrir ríkið að fólk geti unnið, þó að það sé lítið, og borgi skatt. Þá kemur sá skattur alla vega til baka, bæði skattur og útsvar. Sérstaklega vegna þess að þetta fólk er yfirleitt að borga útsvar. Við getum líka bent á að þeir sem eru á fjármagnstekjum borga ekkert útsvar. Þeir sleppa við það, þeir fá alla þjónustu sveitarfélaga en borga ekkert í útsvar. En stærstur hluti skatts eldri borgara og öryrkja fer í útsvarið. Það segir sig sjálft að þessar tekjur skipta máli og það þarf hvort sem er að borga þetta mánuð frá mánuði og hlýtur að vera hagkvæmara að leyfa þeim að vinna og fá skatttekjur til baka.