149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[18:27]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og tek heils hugar undir með honum hvað það varðar að 212.000 kr. er náttúrlega skammarlega lág upphæð til þess að framfleyta sér fyrir í samfélagi sem er þekkt fyrir velferð. Við stöndum vel sem þjóð og þá er þetta náttúrlega ákaflega dapurlegt. Einnig óttast maður að þessi áform og þetta samskiptaleysi, sem birtist greinilega hvað varðar samskipti ríkis og sveitarfélaga, sem birtist í lækkun framlaga til jöfnunarsjóðs og núna í því að ekki hefur verið haft mikið samráð hvað varðar breytingar á stefnunni, bitni á þeim hópum, eins og t.d. NPA-samningunum sem við fögnuðum öll í þessum sal að voru loksins komnir í gegn. Sú hætta er fyrir hendi að ekki verði hægt að fjármagna þá sem skyldi.