149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[18:30]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lagði eyrun við þegar hv. þingmaður ræddi um inntak fjármálastefnunnar og reyndi að tengja það aðeins saman við lög um opinber fjármál og af hverju við ættum að vera að fjalla um nákvæmlega þessi atriði í fjármálastefnu. En jú, það er einmitt vegna þess að í fjármálastefnu á að fjalla um langtímaskuldbindingar. Þær varða lífeyri og lýðfræðilega þróun til næstu ára. Það er áætlun sem okkur vantar, áætlun til að ég held næstu 30 ára, sem á að liggja fyrir og uppfæra á þriggja ára fresti, hvernig lýðfræðilegar tölur þróast yfir næstu áratugi. Það á að nota þær sem grundvöll fyrir fjármálastefnu og fjármálaáætlun. Þar kemur fram hversu mikið er búist við að öldruðum fjölgi og eins og við vitum mun mannfjöldapíramídinn breytast dálítið á næstu árum sem hefur áhrif á fjármál hins opinbera, sem verður að sjálfsögðu að gera grein fyrir í fjármálastefnunni. En það vantar í fjármálastefnuna eins og hún er núna. Það er ekkert fjallað um langtímaskuldbindingar. Þess vegna er svo mikilvægt að tala um þetta mál, því að það er grundvöllurinn að mörgum af þeim langtímaskuldbindingum sem við gerum í opinberum fjármálum. Hverjar eru lífeyrisskuldbindingar okkar til næstu ára og áratuga með fjármálastefnunni og hvað þá heldur skuldbindingar okkar vegna bæði ellilífeyris og örorkulífeyris?