149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[18:32]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Jú, það er nefnilega einmitt það, þess vegna er hún svona alvarlega veik eða fjársjúk, það er einmitt þetta sem vantar inn í. En það er samt greinilega innbyggt í kerfið að minnka alltaf það sem þeir fá sem þurfa mest á því að halda. Það segir sig sjálft að meðan eldri borgarar og öryrkjar fylgja ekki launaþróun, fá ekki afturvirka leiðréttingu, fá ekki kjaragliðnun leiðrétta, þá dragast þeir alltaf aftur úr. Þá verður alltaf erfiðara og erfiðara fyrir þessa einstaklinga að standa undir húsnæði, fæði, klæði og öllu. Og það er ömurlegt að við skulum enn þá vera að hjakka í sama farinu, að við skulum ekki vera komnir neitt lengra í því í okkar ríka samfélagi að byggja það inn t.d. í fjárlög hvernig við ætlum að sjá til þess að allir geti lifað mannsæmandi lífi. Hvað þarf að láta fólk hafa til þess að það geti lifað mannsæmandi lífi? Hver er lágmarksframfærsla þannig að fólk geti lifað með reisn? Það er ekkert svoleiðis í fjárlögum. Það er bara spurt: Hvar getum við skorið niður og hvar getum við byrjað? Og jú, þeir hafa alltaf fundið breiðu bökin, það eru eldri borgarar og öryrkjar, við byrjum þar, byrjum að krafsa í þá. En af hverju ekki að byrja á toppnum, taka þá sem eru ríkastir og byrja þar að ná inn peningunum? Þar er af nógu að taka, eins og bankaskattur, veiðigjöldin o.fl.