149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[18:37]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Í mörg ár hefur verið mikið rætt um nauðsyn langtímastefnu í ríkisfjármálum, verklag sem krefst aga af ríkisstjórn hverju sinni og skapar einhvern fyrirsjáanleika fyrir fyrirtæki og allan almenning í landinu. Þetta er ekki síst mikilvægt í smáu hagkerfi sem þar fyrir utan býr við einn smæsta gjaldmiðil heims sem sveiflast miklu meira en þekkist í stærri myntkerfum. Í því skyni voru sett lög um opinber fjármál árið 2015 sem byggja á því að í upphafi hvers kjörtímabils setur ríkisstjórnin sér fjármálastefnu og síðan á hverju ári fimm ára fjármálaáætlun sem rúmast innan hennar og loks fjárlög til hvers árs sem auðvitað byggja á hvoru tveggja. Fjármálastefnu sína setti núverandi ríkisstjórn fram fyrir 14 mánuðum og skeytti þá ekkert um viðvörunarorð, hvorki frá stjórnarandstöðu, hagsmunaaðilum né fjölmörgum öðrum fagaðilum, þar með talið fjármálaráði.

Fjármálastefna ríkisstjórnarinnar gerði ráð fyrir samfelldum 14 ára hagvexti, nokkuð sem aldrei hefur gengið eftir á Íslandi, og óbreyttu gengi í nokkur ár. Rétt er að nefna að á þeim tíma var meira að segja gengið töluvert hátt og því þurfti í sjálfu sér ekki neina sérfræðinga til að segja okkur að forsendur voru a.m.k. afar hæpnar, svo að ekki sé meira sagt.

Megingagnrýni Samfylkingarinnar og fleiri á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar beindist hins vegar að svokallaðri útgjaldareglu sem felur í sér að afgangur af heildarjöfnuði hins opinbera sé tiltekið hlutfall af vergri landsframleiðslu á hverju ári. Fjármálaráð sagði m.a. í umsögn sinni að með þeirri reglu gæti ríkisstjórnin auðveldlega lent í spennitreyju eigin stefnu, nokkuð sem átti svo heldur betur eftir að koma á daginn. Nú er ríkisstjórnin nefnilega kirfilega föst í þeirri sömu spennitreyju og freistar þess að grípa til eggvopna og skera sig lausa, þ.e. að breyta eigin stefnu. Það á sem sagt að laga hana til þannig að hægt sé að komast í afgang sem er hjá ríkissjóði og redda hlutunum fyrir horn.

Við stýrið á þjóðarskútunni situr núna vinstri flokkur, sem sögulega séð hefði væntanlega litið til tekjuöflunar hjá hópum sem eru í mjög miklum færum til að leggja meira af mörkum, en hins vegar hægri flokkur sem talað hefur um að réttast væri að auka aðhald, sem sagt skera niður og lifa þannig innan stefnunnar. Við þekkjum vel hvar sá niðurskurðarhnífur myndi lenda; á velferðarkerfinu, á almenningi, á verst settu hópunum sem fengu þar að auki ekki að njóta góðærisins sem við hin nutum undanfarin ár.

Ríkisstjórnin velur því að breyta 14 mánaða stefnu sem hún setti sjálf og átti að duga til fjögurra ára. Þetta er „quick fix“, herra forseti, sem reddar vonandi stærstum hluta málanna í augnablikinu en er ólíklegt til að duga mikið lengur vegna þess að enn gætir hjá ríkisstjórninni talsverðrar bjartsýni varðandi efnahagsmál næstu ára og flokkarnir eru of ósamstiga ef eitthvað bregður út af. Það er talað um að gengi krónunnar eigi að haldast óbreytt næstu fimm árin, sem verður að teljast harla ólíklegt. Reiknað er með svipaðri verðbólgu og spáð hafði verið. Það er ekki víst að það gangi eftir. Þá er gert ráð fyrir litlum breytingum á atvinnuleysi þrátt fyrir að það séu blikur á lofti í ferðaþjónustunni og rétt að minna á að hvert prósentustig í atvinnuleysi kostar um 6,5 milljarða kr. Þá er gert ráð fyrir að hagvöxtur taki fljótt við sér og vonandi verður það en það er þó auðvitað aðeins fugl í skógi.

Ef horft er á greiningu Arion banka og fráviksspá Seðlabankans mun ferðaþjónustan dragast saman um 15–16%. Bara það er líklegt til að kollvarpa öllum áformum ríkisstjórnarinnar og þá þarf hún að svara því þegar afgangur er ekki til staðar: Hvar á að bera niður? Ríkisstjórninni er reyndar einkar lagið að blekkja sjálfa sig og almenning og virðist vera fyrirmunað að horfa mikið lengra fram fyrir sig en tærnar ná. Það hefur sannast við framlagningu síðustu fjármálastefnu sem nú er kolfallin og fjármálaáætlunar en einnig vegna falls WOW, vegna dóms í Landsréttarmálinu og auðvitað í kjarasamningum því að jafnvel þar var ríkisstjórninni stillt upp við vegg og aðilar á vinnumarkaði þurftu að draga hana að landi eftir að hún hafði gert eina misheppnaða tilraun til að mæta réttmætum kröfum fólks.

Við þær aðstæður sem nú eru uppi er langmikilvægast að við tökum höndum saman um að verja velferðina og tryggjum að veikustu hóparnir líði ekki í því samdráttarskeiði sem líklega er fram undan. En ástandið er miklu viðkvæmara fyrir þá hópa en ella vegna þess að ríkisstjórnir síðustu ára hafa hvorki skeytt um að skjóta stoðum undir velferðar- og heilbrigðisþjónusta né látið þá njóta uppgangsins sem veikastir voru. Ríkisstjórnin hefur heldur ekki sýnt nægilega framsýni til að fjárfesta í menntun og aðstæðum námsmanna sem lifa við slæm kjör. Og þá spyr maður sig, herra forseti: Er ekki allt í lagi að breyta fjármálastefnunni þegar einhverjir steinar verða á götu manns eða voru þessir 35 milljarðar ekki hugsaðir til að mæta aðstæðum sem nú eru uppi, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson sagði í þætti um helgina? Er það ekki aðeins formalismi að gagnrýna að nú skuli stefnan tekin upp, eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði nýlega á þinginu?

Svarið við öllum þeim spurningum, herra forseti, er: Nei. Það er ekki léttvægt að breyta stefnu sem á að gilda allt kjörtímabilið sem maður setti sjálfur, sem á að veita aðhald við minnsta mótbyr og tiltölulega fyrirsjáanlegar aðstæður.

Í lögum um ríkisfjármál segir, herra forseti, með leyfi:

„Ef grundvallarforsendur fjármálastefnu bresta eða fyrirsjáanlegt er að þær muni bresta vegna efnahagsáfalla, þjóðarvár eða annarra aðstæðna, sem ógerlegt er að bregðast við með tiltækum úrræðum, skal ráðherra leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um breytingar á stefnunni eins fljótt og kostur er.“

En það að breyta stefnu við ekki óvæntari atburði en fiskbrest eða að fyrirtæki fór á hausinn uppfyllir þetta ekki. Það grefur undan trausti, herra forseti. Við erum ekki að takast á við neina náttúruvá eða hörmungar heldur einfaldlega aðstæður sem er hægt að búast við hjá lítilli þjóð sem lifir að miklu leyti, og kannski of miklu leyti, á auðlindum og þarf að takast á við óútreiknanlega duttlunga náttúrunnar. Hvað varðar fall risastórs kerfislega mikilvægs fyrirtækis eins og WOW er rétt að benda á að þau tíðindi komu ekki algerlega á óvart vegna þess að ríkisstjórnin sjálf var búin að kortleggja hvað myndi gerast fyrir tæplega einu ári síðan ef það gerðist.

Herra forseti. Samfylkingin hefði ekki sett sér sams konar fjármálastefnu í ríkisstjórn í upphafi kjörtímabilsins sem þessi ríkisstjórn vill breyta. Þvert á móti viljum við einmitt að stefnan gefi stjórnvöldum tækifæri til að vinna með sveiflujafnandi hagstjórn. Samfylkingin hefði heldur ekki gefið eftir tugmilljarða tekjur í mikilli uppsveiflu heldur safnað í forðann og aukið félagslegan stöðugleika til að hægt væri að grípa til forðans þegar harðnaði á dalnum. Samfylkingin mun auðvitað gera það sem hún getur til að leggjast á árar um að verja velferðina og fyrst ríkisstjórnin vill ekki grípa til þess að innheimta hærri auðlindarentu, sækja auðlegðar- og fjármagnstekjuskatt til ofsaríkra einstaklinga er kannski skást í stöðunni að ganga á afganginn. Með Sjálfstæðisflokkinn í þremur síðustu ríkisstjórnum er að teiknast upp mynd af flokki sem er ekki treystandi fyrir hagstjórninni, flokki sem dugði ekki til að safna forða í búrið þegar mjög vel áraði en liggur nú á meltunni og ætlar að éta síðustu birgðirnar og hefur enga skýra framtíðarsýn. Ég vísa því til föðurhúsana að það sé formalismi að gagnrýna að nú séu fyrirhugaðar breytingar á fjármálastefnu þegar aðeins þriðjungur er búinn af kjörtímabili.

Herra forseti. Þetta gerist þegar tveir mjög ólíkir stjórnmálaflokkar með ólíkar stefnur til grundvallarmála ætla að móta stefnu. Hún verður einfaldlega hvorki fugl né fiskur.