149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[18:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður verður að gera mun á því að menn séu með stefnu sem byggir á of bjartsýnum forsendum og hinu að við séum einfaldlega með ranga stefnu miðað við gefnar forsendur. Stefnan sem við lögðum fram á sínum tíma byggði á spám frá Hagstofunni um að hér yrði framhald á hagvaxtarskeiðinu. Miðað við þær opinberu tölur vorum við með rétta stefnu, enda gekk hún eftir t.d. í fyrra nokkurn veginn upp á aukastaf. Við fáum síðar í þessum mánuði frá Fjársýslunni ríkisreikning fyrir 2018 og ég vænti þess að þar séu allar stóru stærðirnar nákvæmlega eins og lagt var upp með. En síðan þegar forsendurnar bresta, hv. þingmaður, verður maður að taka mið af því. Ríkisstjórninni verður ekki kennt um að það verða áföll í efnahagslífinu þannig að hagspár komi til endurskoðunar og það muni jafn miklu og við erum að horfa upp á. Við erum í því að bæta lífskjörin í landinu. Við verðum mæld af því. Við verðum ekki mæld af því hversu góð við erum að spá fyrir um hagþróun.