149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[18:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Loga Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar, fyrir prýðisræðu, yfirgripsmikla ræðu þar sem hann fór inn á grundvallarprinsipp og sjónarmið sem m.a. hans flokkur stendur fyrir, að hluta til það sem aðrir flokkar eins og Viðreisn geta tekið undir. Það er ekki heldur ágreiningsmál að á ákveðnum sviðum greinir okkur á um efnahagsstjórn og ekkert við því að segja. Ég held að hægt sé að segja að við séum með svipaðar áherslur þegar kemur að því að verja þá sem verst eru staddir og ég kem þeirri fyrirspurn minni hér á eftir.

Ég vil undirstrika það að ég ætla ekki að vefengja þann rétt í sjálfu sér eða gagnrýna mjög þegar komið er aftur með endurnýjaða fjármálastefnu. En þegar fjármálastefnan var samþykkt, og það var á síðasta ári, var einmitt varað við öllu því sem við stöndum síðan frammi fyrir í dag. Það er margt rétt sem hefur komið fram í máli hæstv. fjármálaráðherra og ýmissa hér, margir fínir punktar. Við í Viðreisn vorum ekki með stór útgjaldaloforð. Við fórum ekki í 100 milljarðana eins og Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn. Ég held jafnvel að Framsóknarflokkurinn hafi verið einna hógværastur í útgjaldaloforðum, þau voru pínulítið skömmuð fyrir vikið. Við höfum varað við því að auka útgjöldin í uppsveiflu þannig að þegar niðursveiflan verður verði ekki hægt að mæta henni með skynsamlegum fjárfestingum. Er hv. þingmaður sammála okkur í Viðreisn um að núna sé frekar rétti tíminn til að fara í skynsamlegar innviðafjárfestingar þegar við stöndum frammi fyrir niðursveiflu? Væri hægt að sameinast um það með einhverjum hætti? Ég bind ekki endilega miklar vonir við að ríkisstjórnin óski eftir einhverri samvinnu við okkur í stjórnarandstöðunni, (Forseti hringir.) en getur hv. þingmaður hugsað (Forseti hringir.) sér að við mætum þessari niðursveiflu — sem allir hefðu mátt sjá fyrir, (Forseti hringir.) ekki síst þeir sem eru í ríkisstjórninni — með því að farið væri í slíkt á næstu dögum?