149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[19:06]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er þakklátur hv. þingmanni fyrir þessa spurningu af því að hann veit jafn vel og ég að í fjárlögum og fjármálaáætlun er beinlínis talað um skattafslátt til ferðaþjónustunnar svo nemur tugum milljarða. Það er ekkert endilega heilbrigt að kerfið vaxi alltaf mjög hratt og skreppi mjög hratt saman. Það er hugsanlegt að eftir hrunið, þegar þessi ofsavöxtur byrjar í ferðaþjónustunni, hefði verið gáfulegra að hún væri bara í eðlilegu skattumhverfi og yxi hægar, með sjálfbærari hætti og það yrði byggt meira á gæðum, varanleika og slíkum hlutum en skjótfengnum ofsagróða sem getur beinlínis haft vond áhrif á aðrar atvinnugreinar. Þetta var ekki gert. Nú er ekki tími til að gera það. Nú vitum við öll að ekki verða lagðar álögur á ferðaþjónustuna, alls ekki. Það munum við aldrei gera við núverandi aðstæður en á þeim tíma hefði það vissulega átt að skoðast.