149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[19:18]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir ágæta ræðu. Hann velti fyrir sér hvað rétt væri að gera við þær aðstæður sem nú eru uppi og var með réttmætar vangaveltur hvað það varðar. Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins um skattamál, svo ég átti mig aðeins á stefnu flokks hans í skattamálum. Ég þreytist ekki á að minnast á að við getum ekki rætt um framtíðarsýn í ríkisfjármálum eða viðbrögð við niðursveiflu án þess að ræða um hvers konar skattstefnu við viljum. Á að hækka skatta eða lækka skatta? Á ekki að snerta á sköttunum eða á að hækka skatta á ákveðna hópa eða fyrirtæki eða hvað?

Mig langar í þessu andsvari mínu að kalla eftir, ef hægt er, afstöðu hv. þingmanns til hugsanlegra skattbreytinga.

Í fyrsta lagi: Myndi hv. þingmaður styðja hækkun veiðileyfagjalds? Ég hef gagnrýnt það ötullega hér að stjórnarmeirihlutinn hefur tekið þá ákvörðun að lækka veiðileyfagjöldin niður á það stig að það er fullkomlega óásættanlegt að mínu mati. Veiðileyfagjaldið er orðið svipað hátt og tóbaksgjaldið.

Númer tvö er: Hver er afstaða hv. þingmanns til auðlegðarskatts og hugsanlega þá öðruvísi útfærslu en við vorum með síðast, jafnvel hafa hann tekjutengdan? Ég hef sömuleiðis ítrekað bent á að hér er talsverður eignaójöfnuður. 1% landsmanna á gríðarlegar eignir, 0,1% landsmanna á gríðarlega eignir. Hér gæti verið vannýttur tekjustofn til að mæta þeirri niðursveiflu sem fram undan er og við erum komin í.

Í þriðja lagi er það fjármagnstekjuskatturinn: Hefur hv. þingmaður og flokkur hans tekið afstöðu til þeirrar spurningar hvort komi til greina að hækka einfaldlega fjármagnstekjuskatt? Við erum með lægsta fjármagnstekjuskatt allra Norðurlandanna. Það væri áhugavert að fá afstöðu þingmannsins, hvort til greina komi að hækka hann lítillega til að mæta þeirri niðursveiflu sem er fram undan í þeirri viðleitni okkar að verja þá sem minnst hafa og velferðarkerfið.