149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[19:20]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að tala almennt um skatta. Það eru í raun til tvær túlkanir á hlutverki skatta. Önnur túlkunin er sú að skattar séu innheimtir af ríkinu til að borga fyrir ríkisútgjöld. Hin túlkunin er að ríkið búi til peninga, setji þá í umferð, innheimti svo skatta til þess að taka peninga úr umferð til að ekki myndist verðbólga. Ég er hrifnari af seinni útgáfunni, þetta er svona MMT-nálgun og má rekja það til post-keynesista. Út frá því segir maður: Meginmarkmið skatta er að tryggja stöðugleika hagkerfisins og síðan er hægt að bæta einhverjum pólitískum markmiðum við, t.d. að auka jöfnuð og annað.

Í stefnu Pírata er t.d. að hækka fjármagnstekjuskatt upp í 30% og ég hef verið mjög opinn fyrir jafnvel þrepaskiptingu hans eða búa til einhvers konar persónuafslátt umfram það sem nú er. En lykilatriðið er ekki endilega hvort skattar eigi að hækka eða lækka heldur hvernig við búum til einhvers konar samfellu sem tryggir stöðugleika í hagkerfinu og að það valdi fólki ekki skaða.

Síðustu 30 ár eða svo hefur því ítrekað verið haldið fram, yfirleitt af hálfu Sjálfstæðisflokksins, að skattalækkanir eigi sér stað. En samhliða því sem minni háttar skattalækkanir eiga sér stað er verið að velta þessum tekjum yfir á gjöld þannig að fólk borgar hærri gjöld fyrir alla hluti. Svo er komið að í rauninni borga þeir sem eru tekjulægstir oft mun stærri skerf fyrir vikið en fyrir 30 árum (Forseti hringir.) þrátt fyrir að skattarnir séu samkvæmt einhverjum prósentumælingum lægri.