149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[19:23]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Takk fyrir svarið. Ég sem jafnaðarmaður lít á hlutverk skattkerfisins sem tvíþætt, eins og formaður Samfylkingar gat aðeins um í ræðu sinni, þetta er ekki bara tæki til tekjuöflunar heldur líka jöfnunartæki. Ég skil hv. þingmann þannig að hann líti það svipuðum augum.

Í seinna andsvari langar mig að spyrja, af því að hv. þingmaður gat aðeins um gildi stöðugleika. Ég er alveg sammála því, hér þarf að vera stöðugleiki og einn helsti gallinn á íslensku hagkerfi er skortur á stöðugleika. Við erum með of sveiflukennt hagkerfi og það er erfitt að gera hér langtímaáætlanir. Ég hef oft ímyndað mér að það sé nógu erfitt að vera í viðskiptum á Íslandi þó að ekki bætist líka við að maður þurfi að vera einhver sérfræðingur í þróun gjaldmiðla.

Mig langar aðeins að fá vangaveltur hv. þingmanns, ef hann kærir sig um að svara, varðandi gjaldmiðilinn. Við sjáum að ekkert OECD-ríki hefur upplifað jafn miklar sveiflur í raungengi gjaldmiðils og Ísland hefur gert undanfarin 15 ár.

Mig langar að fá vangaveltur þingmannsins: Er ekki alveg útséð með þennan blessaða gjaldmiðil? Við sjáum að hann fellur, stundum er hann of hár, stundum of lágur. Þurfum við ekki að fara að taka raunhæfari skref til að taka upp alvörugjaldmiðil sem er ekki eins og korktappi í ólgusjó hagkerfisins? Mér finnst það alveg augljóst og það er ekki hvorki heimska né tilviljun að 19 Evrópuþjóðir hafa tekið upp evru sem sinn gjaldmiðil.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann deili þeirri framtíðarsýn að Ísland ætti að taka raunhæf skref um að ganga í Evrópusambandið og síðan taka einfaldlega upp evru einmitt með það að markmiði að skapa hér langþráðan stöðugleika sem við munum aldrei búa við með íslensku krónuna og höfum ekki gert þessi tæplega 100 ár sem við höfum búum við með íslensku krónuna.