149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[19:27]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna. Ég missti reyndar af upphafinu en vona að það komi ekki að sök. Hv. þingmaður talaði svolítið um þróunina á hagtölum og varðandi fjármálastefnu sem sett er til fimm ára er ekkert óeðlilegt, a.m.k. þegar á líður á tímabilið, að þá hafi þróunin orðið þannig að hún verði önnur en gengið var út frá í upphafi. Þess utan erum við sveiflukennt hagkerfi vegna gjaldmiðilsins okkar, og höfum komið inn á það hér, en reyndar bjóða okkar helstu atvinnuvegir líka upp á það. Það eru þekktar staðreyndir.

Þess vegna langar mig að fá aðeins að heyra frá hv. þingmanni hvaða leiðir séu færar að mati hans til að reyna að tryggja að það endurtaki sig ekki að hér sé sett stefna til fimm ára sem þegar á fyrsta árinu eða eina og hálfa árinu er orðin þess eðlis að það þarf að taka hana upp. Það skiptir máli. Þetta er ekkert einkamál stjórnvalda eða sérstakt tilfelli sem er þeim til háðungar að staðan sé svona. Þetta skiptir máli fyrir fjölmarga aðila. Það eru fyrirtæki, það eru stofnanir, það eru einstaklingar, það eru lánardrottnar, kröfuhafar o.s.frv. sem gera áætlanir sínar út frá þeim áætlunum sem hér er verið að gera.

Mér þætti áhugavert að heyra, vegna þess að nú er verið að tala um það í þessari nýju ályktun að við þurfum að draga af því lærdóm og þar er verið að tala um mögulega breytta nálgun í þessu með tilliti til pólitískrar samstöðu um aukinn sveigjanleika og þess háttar, hvað hv. þingmaður sér fyrir sér að gæti orðið lærdómurinn sem við drögum af þessu, þ.e. hvað varðar vinnubrögðin í þinginu.