149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[19:31]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy kærlega fyrir. Þetta eru mjög áhugaverðar og skemmtilegar umræður sem ég vona að fái töluvert meira vægi þegar við komum næst að þessari vinnu. Mig langar aðeins að fara yfir í núið af því að ein af stærstu boðuðu stórsóknum núverandi ríkisstjórnar í upphafi ríkisstjórnartíðar sinnar var stórsókn í innviðauppbyggingu. Nú hefur ríkisstjórnin farið mikinn og sagt að í þessari nýju stefnu felist ábyrgð í ríkisfjármálum vegna þess að það sé óábyrgt að draga saman seglin á sama tíma og hagkerfið er að dragast saman. Það er í sjálfu sér hægt að taka undir þá staðhæfingu en það er ekki sama hvar útgjaldaaukningin er. Ef maður skoðar fjármálaáætlunina sem nú er í gildi, hún mun vissulega taka breytingum, má segja að grunnreksturinn af um 200 milljarða boðaðri aukningu í þeirri áætlun taki til í sínum 185 milljarða og fjárfestingar síðan um 15 milljarða. Ekki er verið að leggja í innviðauppbyggingu heldur bara stækka báknið í rekstri.

Það væri áhugavert að heyra hjá hv. þingmanni, sem veltir þessum hlutum mikið fyrir sér, hvort borð sé fyrir báru. Nú er einsýnt að einhverjar fjárfestingar munu þurfa að bíða. Það hefur meira að segja verið nefnt af einstaka talsmönnum ríkisstjórnarinnar að hinar og þessar fjárfestingar muni væntanlega þurfa að bíða og ég hef fullan skilning á því. En dugar það til? Er hægt að ná tökum á þessu án þess að fara í grunnreksturinn að einhverju leyti þegar hlutföllin eru jafn ýkt og raun ber vitni á milli fyrirhugaðrar útgjaldaaukningar annars vegar í þennan grunnrekstur, í báknið, og hins vegar í nýfjárfestingar?