149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[20:00]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að fara yfir nokkur efnisatriði tillögunnar sem við ræðum í dag. Einnig langar mig að ræða aðeins tilgang tillögunnar og þær aðstæður sem hún er lögð fram í og ástæðuna fyrir því að hún er lögð fram, eins og aðrir hv. þingmenn hafa gert hér. Af ótta við að hafa ekki nægan tíma til að fara yfir allt það sem mig langar til að fara yfir ætla ég að byrja á því sem ég tel ólíklegast að aðrir þingmenn nefni hér um þetta mál og sambærileg mál. Með sambærilegum málum á ég við fjármál almennt, en það er þetta: Í þessari tillögu koma fram tölur og það er eiginlega of lítið af upplýsingum til að maður kalli það gögn í sjálfu sér, en vissulega upplýsingar sem eru byggðar á gögnum. Þau er að finna hér og þar í alls kyns sniði. Ég hef mikla reynslu af því að reyna að fá gögn á tölvutæku eða tölvuvinnanlegu sniði og viðbrögðin sem ég fæ undantekningarlítið frá eiginlega hvaða stofnun sem er eru yfirleitt á þá lund að þetta sé eitthvert smáatriði, þetta sé tuð, skipti engu raunverulegu máli. Ég skil það upp að ákveðnu marki vegna þess að sennilega er flest fólk vant því að vinna bara með blöð og pappír og eitthvað svoleiðis en þegar gögn eru sett fram á tölvutækan hátt og tölvuvinnanlegan hátt er hægt að gera ótrúlega hluti með tölvutækninni. En það er ekki hægt að gera ótrúlega hluti með tölvutækninni nema gögnin séu sett þannig fram.

Fyrir tilstilli Pírata á sínum tíma fór inn í lög um opinber fjármál ákvæði sem fjallar um að talnagrunnur fjárlaga skyldi gefinn út á tölvutæku sniði, aðgengilegu sniði, og það var gott. Það fór inn og úr því eru komin einhver gögn. En það sem mér finnst alltaf vanta þegar tekin eru fyrir mál eins og þetta er að auðvelt sé að vinna með þessi gögn á tölvutækan máta. Það þarf ekki að vera hver einasti þingmaður sem gerir það, ég er ekki að tala um það. Það er nóg að það sé hægt yfir höfuð. Þá er hægt að búa til verkfæri til að aðstoða hv. þingmenn með það eða nefndarritara eða hvern sem er, fréttamenn eða greiningaraðila eða fyrirtæki úti í bæ eða Seðlabankann sjálfan eða hvern sem er. Í því felst máttur þess að gefa gögn út opin og á gegnsæju sniði, sniði sem allar tölvur geta notað.

Þetta skiptir máli, virðulegi forseti. Ég nefni það í þessu samhengi vegna þess að mér finnst það skipta öllu máli þegar kemur að því að greina forsendur á borð við þær sem eru að baki þessari tillögu. Hvað gerir sá sem ætlar að fara að skoða forsendurnar á bak við þessa tillögu? Jú, hann fer væntanlega á Hagstofuna og flettir þar upp einhvers konar gögnum á einhvers konar sniði, sennilega einhvers konar pdf-skrá í einhverjum annars ágætum greinum hér og þar. En þannig á ekki að vinna með töluleg gögn á 21. öldinni, virðulegi forseti. Það er allt í lagi að gera það ef fólk hefur áhuga á því. En til að nýta þau þannig að það geti virkilega umbylt getu okkar til að fara yfir þessi mál, greina þau rétt og gera áætlanir inn í framtíðina eða í það minnsta reyna að spá fyrir um það hvaða forsendur komu málinu yfir höfuð við, skiptir þetta öllu máli. Þetta er í raun og veru ákveðið grundvallaratriði. Ég held að það sé þess vegna sem þetta virkar eins og tuð, virðulegi forseti, vegna þess að þetta er grundvallaratriði. Þetta er fyrsta skrefið. Þetta er ekki stóra myndin, þetta er ekki heildarmyndin, þetta er ekki allt sem þarf að segja. Þetta leysir ekki öll vandamálin og þetta lýsir þeim ekki, reyndar engu þeirra efnislega, en mér finnst þetta skipta máli og þess vegna nefni ég það í þessari pontu. Ég veit ekki alveg hvernig er hægt að koma þessu tuði á framfæri á betri hátt en hér.

Ég mun líka gera það í öðrum málum sem varða sambærilegt efni. Það skiptir máli hvernig gögnin eru birt. Það skiptir máli að það sé gert á bestan mögulegan hátt. Það skiptir bara máli. Það er ekki pólitískt atriði og það er ekki heldur háð því að hv. þingmenn sjálfir eða aðilar sem stjórna þessu geti sjálfir forritað eitthvað sem les einhver gögn úti í bæ. Nei, það þarf bara að vera mögulegt yfir höfuð til þess að einhver geti fengið hugmyndina að því og látið þá einhvern annan tölvunörd útfæra það. Það dugar. En tölvunördinn getur ekki útfært það ef gögnin eru ekki til staðar yfir höfuð. Það er alla vega verulega erfitt og svarar ekki kostnaði.

Ég vildi óska þess að við hefðum meiri tíma vegna þess að þótt ég gæti rætt þetta betur finnst mér ég líka þurfa að fara aðeins efnislega yfir tillöguna og það samhengi sem hún er lögð fram í. Ég á pínulítið erfitt með að ræða svona mál þannig að ég taki mér einfaldlega stöðu með eða á móti, sér í lagi gagnvart öðrum flokkum, jafnvel þótt það sé Sjálfstæðisflokkur og jafnvel hæstv. fjármálaráðherra. Ég er ekki einfaldlega á móti þessari tillögu, en mér finnst eitt jákvætt við hana og það er að hún sé til. Sú var tíðin að hún hefði aldrei orðið til. Þá værum við ekki einu sinni að ræða forsendurnar á bak við hana. Það heyrist kannski að mér finnst gott að til séu lög um opinber fjármál og mér finnst mjög gott að þessi tillaga komi til umræðu þegar aðstæðurnar eru eins og þær eru í dag. Mér finnst gott að heyra hæstv. fjármálaráðherra stæra sig af því að öll merkin sem hann hafi orðið var við frá aðilum úti í bæ hafi verið á þá leið að við værum að búa í haginn fyrir niðursveiflu. Hvort það er rétt er önnur spurning, en mér finnst jákvætt í eðli sínu að gortað sé af því vegna þess að sú var ekki alltaf raunin. Á sínum tíma var talað um að tala niður hagkerfið og tala niður efnahaginn. Mig grunaði reyndar að það væri svolítið viðhorfið sem endurspeglaðist í upprunalegu tillögunni sem lögð var fram í haust, þ.e. að ekki mætti koma fram frá ábyrgum aðila eins og fjármálaráðuneytinu að hugsanlega yrði ekki hagvöxtur, að það væri einhvern veginn óábyrgt að tala þannig hagkerfið niður.

Mér hefur alltaf verið svo illa við þá nálgun og orðræðu sem var mjög mikið fyrir hrun. Ég vil meina að hún eigi þokkalegan þátt í hruninu vegna þess að hún gerði öll viðvörunarorð að einhvers konar óvini fólksins. Við þekkjum það. Hún gerði það að verkum að fólk hunsaði sjálfkrafa viðvörunarorðin, sem var mjög neikvætt. Sömuleiðis og síðast en ekki síst varð það til þess að yfirvöld gerðu aldrei ráð fyrir því að neitt gæti farið úrskeiðis. Og þá gerast stórslysin eins og hrunið 2008. En jafnvel þótt hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson hafi rangt fyrir sér í því að við höfum verið að búa í haginn fyrir niðursveifluna finnst mér alla vega mjög jákvætt að heyra hann segja að svo sé vegna þess að þá er alla vega á hreinu að við getum talað um að það komi niðursveiflur í hagkerfinu. Ef við getum ekki talað um það þá fyrst hef ég áhyggjur.

Það vekur athygli mína við að skoða þessa tillögu að hún virðist gera ráð fyrir niðurskurði eða skattahækkunum eftir því sem fram líða stundir, og hendir þeirri umræðu inn í umræðu um fjárlög og fjármálaáætlun. Ekki er tekið á því efnislega í tillögunni sjálfri, enda er það kannski ekki tilgangur tillögunnar. Mér finnst það óþægilegt og get ekki sagt að ég hlakki til þeirrar umræðu, en auðvitað þarf að taka hana samt sem áður. Þá kemur einmitt upp hin nokkuð gamla kenning sem kennd er við Keynes, sem er um hvernig og hvort beita eigi ríkisfjármálunum við hagstjórn, þ.e. að auka útgjöld og lækka skatta þegar niðursveifla kemur, og öfugt þegar það er uppsveifla. Það er alltaf svo freistandi þegar það er uppsveifla að njóta hennar og passa að hún sé nýtt til allra þeirra verka sem stjórnmálamenn vilja gera hverju sinni. Ég skil þann metnað og deili þeirri tilfinningu. Og einhvern veginn finnst mér að ef byggja á á þeirri ágætu tilgátu, sem ég aðhyllist — ég tel hana skynsamlega með öllum þeim fyrirvörum að ég á erfitt með að vera beinlínis með eða á móti einhverju, mér finnst að svona atriði eigi yfirleitt að vera bara til umfjöllunar til umræðu, tæki til að reyna að komast að niðurstöðu. Mér finnst að þingheimur hefði gott af því að sammælast um hvort fara eigi eftir þessari pælingu eða ekki. Kannski er hún bara röng, en þá finnst mikilvægt að við eigum að reyna að fá það á hreint þannig að við nálgumst hagsveifluna alla vega út frá sama skilningi á því hvernig hlutirnir virka. Hér er um hálfvísindalegt fyrirbæri að ræða, hagfræðina, sem er annars vegar vísindi og hins vegar vúdú, eins og stundum er sagt, þannig að það er kannski ekki alveg hlaupið að því að ætla að reyna að fá einhverja þverpólitíska sátt um slíkt atriði. En ég held að það væri gott að reyna. Mér finnst alltaf þægilegra ef fólk segir einfaldlega í pontu hvort það aðhyllist þessa nálgun eða ekki vegna þess að þá finnst mér auðveldara að vita hvernig á að haga samtalinu varðandi áframhaldið.

Það eru nokkrir hlutir sem mig langaði einnig að ræða um en ég verð því miður að koma því að í seinni ræðu, virðulegi forseti, og bið því um að verða settur aftur á mælendaskrá.