149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[20:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get sagt það eftir að hafa verið þingmaður 2013–2016 og frá 2017 til dagsins í dag, að það hefur verið skilningur minn á þeim málum sem við höfum verið með hér til umfjöllunar, t.d. við afgreiðslu fjárlaga, safn laganna, eins og maður á að kalla þau núna en ekki hinu orðinu — ég man mjög vel eftir skattalækkunum sem komu mjög snemma á kjörtímabilinu sem hófst 2013, sem við gagnrýndum þá, þ.e. að fara í skattalækkanir akkúrat á þeim tíma sem ekki var skynsamlegt að fara í slíkt. Auðvitað er það ekki alltaf vinsæll málstaður, en þannig málstað verða stjórnmálamenn að geta barist fyrir.

Aftur á móti verð ég líka að segja að hv. þingmenn, jafnvel hv. þingmenn í fjárlaganefnd, jafnvel hv. þingmenn sem eru vel að sér, fullyrði ég, eiga erfitt með að setja fram algjörlega kýrskýrar upplýsingar í kringum það nákvæmlega hvernig skattþróunin hefur verið í heild sinni á mjög löngu tímabili. Ástæðan er sú að þegar einn skattur er lækkaður er kannski annar hækkaður og svo eru sett einhver gjöld til að koma til móts við það og alls konar flækjur.

Þetta kemur inn á það sem ég var að tala um áðan varðandi mikilvægi þess að gögnin séu sett fram með tölvutæku og vinnanlegu sniði þannig að hægt sé að biðja einhvern úti í bæ að setja þau upp í línurit með grafi með engum fyrirvara. En í stað þess, ef ég ætti að fara að kanna þessa spurningu núna myndi það taka mig alveg óheyrilega mikinn tíma. Ég þyrfti að fletta upp í alls konar gögnum, sem ég gæti alveg gert ef ég hefði tíma til þess, gömlum fjárlögum, gömlum fjáraukalögum, gömlum ríkisreikningum og guð má vita hverju til að komast að þessu, þegar ég ætti að geta gert sjálfur vegna þess að það vill svo til að ég er forritari, eða fengið einhvern forritara til að finna út úr svona hlutum fyrir mig. Það á ekki að vera svakalega flókið mál. Það á ekki að krefjast svakalega mikillar vinnu, þ.e. ef gögnin eru birt á þann hátt sem ég var að nefna, opin og aðgengileg og á sniði sem allar tölvur geta notað. Mér finnst þetta vera svo mikið grundvallaratriði (Forseti hringir.) vegna þess að þetta er svo mikil forsenda þess að umræðan geti orðið skilvirk, t.d. hér í pontu.

Ég veit að þetta svarar ekki spurningu hv. þingmanns en ég vona að þetta hafi komist nálægt því.