149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[22:19]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við enn um fjármálastefnu næstu fimm ára. Ég er svo sem ekki gömul í faginu hvað lýtur að því að fjalla um fjármál ríkisins eða fjármálastefnu yfirleitt. Ég vildi gjarnan reyna að horfa lausnamiðað á hlutina. Jú, við vorum með fjármálastefnu sem ég var ósátt við yfir höfuð fyrir ári síðan. Ekki líkar mér betur sú sem við horfumst í augu við nú. Ég hugsa frekar í ljósi þess að mikið er talað um hvað við höfum greitt niður af skuldum, hvað við stöndum vel fjárhagslega í dag, hvað við stöndum vel hvað lýtur að gjaldeyrisforðanum okkar. Við tökum á sama tíma náttúrlega til við að horfast í augu við fall WOW. Við horfumst í augu við loðnubrest sem kostar okkur um 18 milljarða.

Á sama tíma fáum við líka þær góðu fréttir að það er spáð um 110 milljarða kr. arðgreiðslum í ríkissjóð á næstu fimm árum úr okkar sameiginlegu Landsvirkjun. Ég velti fyrir mér hvað mun koma frá t.d. Landsvirkjun í arð í ríkissjóð á þessu ári. Væntanlega þurfum við að horfa upp á samdrátt í þorskveiði ef marka má hið svokallaða togararall þrátt fyrir að hér séu allir firðir fullir af þorski. Sjómenn tala um að þeir hafi ekki séð aðra eins vöðu af þorski inn á firði sem er engin smásmíði, þorskum sem eru flestir á stærð við mig, þannig að maður spyr sig: Hvers lags eiginlega stjórnun er þetta? Við getum aukið við fjármuni okkar inn í sjóðinn, t.d. með því að auka veiði í þorskinn og glápa ekki bara á togararallið. Hvað gætum við gert með því að hlusta einhvern tíma á þá sem vita kannski betur og eru að veiða alls staðar allt í kringum landið og með í fanginu risaþorska á sama tíma og maður hugsar um loðnubrestinn. Hvert er þá ætið, virðulegur forseti? Jú, þorskurinn sjálfur. Hann étur bara sína líka.

Burt séð frá öllu þessu þarf maður að reyna að hugsa í lausnum, hvort ekki sé hægt að bregðast við öðruvísi en að stokka upp fjármálastefnuna og láta líta út fyrir að hér sé alveg gríðarlega vá fyrir dyrum. Jú, auðvitað, við erum að takast á við niðursveiflu, það er nokkuð ljóst og hefur komið fram hér í dag.

En hvar eru úrbæturnar fyrir okkar minnstu bræður og systur? Hvar er raunveruleg forgangsröðun fjármuna? Það sem við vorum búin að horfast í augu við var að lækka á veiðigjöldin. Lækka átti bankaskatt um 7 milljarða. Góðu fréttirnar eru þær að eftir því sem hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt verður þeirri aðgerð sennilega frestað um sinn. Einhvern veginn verðum við að safna peningum til að takast á við þann vanda sem er fyrir höndum. Gerum við það með því að koma t.d. í veg fyrir að okkar minnstu bræður og systur fái leiðréttingu á sínum kjörum? Hverjir eru það sem hingað til hafa verið látnir bera allar byrðarnar? Hvaða bök hafa þótt vera það sterk að þau geti alltaf bognað meira? Ef við lítum alveg aftur að hruni, hver var niðurstaðan í úrlausninni eftir hrun? Hverjir fóru verst út úr því fyrir utan fyrirtæki sem fóru á hausinn og annað slíkt? Hverjir fengu utan um sig gjaldborg og voru í þúsundatali bornir út á götu, 12.000 fjölskyldur, á meðan skjaldborgin var reist utan um fjármálafyrirtæki og tryggingafélög?

Er það furða þegar maður er að hugsa núna um fjármálastefnu til fimm ára að hvergi er gert ráð fyrir því nokkurs staðar að koma til móts við þá sem hokra á lúsarframfærslu. Það er ekkert komið til móts við þá sem í rauninni þurfa mest á því að halda og ég segi: Hvers vegna að forgangsraða fjármunum eins og raun ber vitni nema út af því að það eru þeir sem ekki gera nógu mikið gagn, skaffa ekki nógu mikið í ríkissjóð, sem er ekki þess virði að berjast fyrir á þessu háa Alþingi? Mér finnst að þau eigi að sitja við sama borð og fá sömu möguleika til þess að njóta þeirra gæða sem við höfum lifað við upp á síðkastið.

Þegar kemur að því að virkilega taka utan um fjármálastefnu sem ætlar að klípa pínulítið af hverjum málaflokk fyrir sig á næstu fimm árum til þess að ná til baka, af hverju ekki gera þetta almennilega? Af hverju ekki að sækja peningana þangað sem þeir eru? Af hverju eru allir svona feimnir við að nýta auðlindirnar okkar? Hvers vegna má ekki setja meiri gjöld á auðlindirnar? Hvað með laxeldið? Hvað berum við úr býtum fyrir vaxandi laxeldi? Hvers vegna í veröldinni skyldum við ekki taka meiri rentur af þeirri auðlind? Og hvað með sjávarauðlindina okkar almennt, hringinn í kringum landið? Hverjir eru að maka krókinn á henni? Hverjir byggja sér hallir og fyrirtæki úti um allar koppagrundir vegna þess að þeir hafa haft aðgang að auðlindinni okkar? Hvers vegna nýtum við ekki auðlindirnar okkar núna þegar við erum í niðursveiflu og þegar við virkilega þurfum á því að halda?

Virðulegi forseti. Ég er bara svona einföld, húsmóðirin sem hefur þurft að spara í gegnum tíðina og hokra á lúsarframfærslu sem mér var sköffuð sem öryrkja. Maður hefur lært að spara. Ég átta mig ekki alveg á þessu, ég verð að segja það, þrátt fyrir að jafnvel sé boðaður samdráttur og að hætta við ákveðnar framkvæmdir og annað slíkt. Ég hélt t.d. að það væri algjörlega hagfræðilega í þversögn við allt sem eðlilegt þykir, að þegar væri samdráttur í efnahagslífinu mætti ríkið ekki líka draga saman seglin því að þá yrði það enn þá erfiðara fyrir okkur.

Það var vitað þegar fjármálastefnan kom út á dögunum að allar forsendur fyrir henni voru brostnar áður en plaggið kom úr prentun. Það var líka vitað í alllangan tíma að það stefndi í eitthvað hjá WOW air en vonast var eftir því að ekki yrði það úr því sem varð. Það er hálfgert vogun vinnur, vogun tapar, gambl-hugmyndafræði, að þetta reddist allt. Í því tilviki gerðist það það bara alls ekki. Maður veltir fyrir sér t.d. hversu gríðarlegur skellur það var á efnahaginn okkar og hátt í 800 manns duttu inn á atvinnuleysisskrá á einni nóttu. Þó að þetta hafi verið einkarekið fyrirtæki veltir maður fyrir sér: Hvenær vega hagsmunir þjóðarinnar það þungt að jafnvel sé ástæða til að stíga inn í þótt ekki væri nema til þess að jafnvel koma með lánveitingar eða eitthvað? Ég veit ekki betur en að Icelandair hafa fengið 10 milljarða lán frá Landsbankanum skömmu áður. Ég skil þetta ekki. Stundum finnst mér vera ákveðið mismununarferli og ekki allt gilda jafnt um alla, bæði hvað þetta varðar, svo ég tali ekki um samfélagið í heild og hvernig almenningur hefur verið látinn blæða.

Það sem mér þykir jákvætt líka og við getum horft á og hefði kannski átt að vera frekar styrking í stöðinni og hlýtur að vera það eru kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði sem hafa gengið, eins og við öll vitum, betur en nokkur þorði að vona miðað við þá ólgu sem var í samfélaginu. Þar má ekki síst þakka því að ríkisstjórnin stígur inn með það sem hún gerir. Þrátt fyrir að vera í stjórnarandstöðu get ég ekki horft fram hjá því. Það er bara þannig. Ég er þannig gerð. Ríkisstjórnin kom inn með útspil sem varð til þess að við erum komin með þessa svokölluðu lífskjarasamninga. Það er samt svo einkennilegt að allir þeir sem eru á framfærslu almannatrygginga, þeir sem eru t.d. ekki einu sinni með lífeyrissjóð, fá 212.000 kr. og þaðan af minna útborgað í mánuði. Hugsið ykkur, 212.000 kr., og eiga eftir að borga allt; fæði, klæði, húsnæði — allt.

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að lifa af því en fyrir þessa einstaklinga var akkúrat ekki nokkur skapaður hlutur gerður til þess að leiðrétta framfærslu þeirra. Þeir fá ekki eina einustu krónu í hækkun fyrr en í janúar á næsta ári þegar það verður enn þá örugglega brotin á þeim 69. gr. almannatryggingalaga þar sem þau verða látin fylgja vísitölu neysluverðs í stað þess að fá að njóta þess að fylgja almennri launaþróun á markaðnum.