149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[22:36]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Að sjálfsögðu gleðst ég með öllum öðrum yfir því hversu vel okkur hefur gengið að greiða niður skuldir og að við skulum vera jákvæðu megin í þeim efnum. Ég býst við því að sett verði dálítil bremsa á það núna. Við erum það vel stödd að við höfum varla bolmagn til að halda áfram að greiða niður skuldir á meðan við ætlum að takast á við annað.

Það er eitt sem ég tek eftir og er aldrei rætt hér, aldrei nokkurn tíma. Það er það fjármagn sem með einfaldri lagabreytingu bíður eftir því í lífeyrissjóðakerfinu að við getum nýtt það í okkar þágu. Við inngreiðslu í lífeyrissjóðina er ekki tekin staðgreiðsla. Það er engin staðgreiðsla skatta af öllu vinnandi fólk í landinu þegar það borgar í lífeyrissjóðina. Hins vegar er staðgreiðslan tekin þegar við fáum útborgað úr lífeyrissjóðunum. Við skulum ekki einu sinni reyna að gleyma því hversu margir eru löngu dánir áður en þeir fá nokkurn tímann greitt út úr lífeyrissjóðnum sínum og öll sú staðgreiðsla sem þessir einstaklingar hefðu getað komið inn í veltuna, sameiginlegan sjóð, dettur niður og verður áfram í hítinni hjá lífeyriskerfinu, sem núna er útbólgið af næstum 5.000 milljarða kr. eignum. Að hugsa sér.

Og ég efast um að nokkur einasti lífeyrisþega í landinu myndi neita því að láta taka staðgreiðslu strax við innborgun. Það fjármagn sem við hefðum þar gæti útrýmt öllum skerðingum í samfélaginu og við gætum hækkað grunnframfærslu skatta- og skerðingarlaust við 320.000 kr. Við gætum útrýmt sárri fátækt. Talar einhver um það? Nei, engan veginn vegna þess að það virðist vera svo rosalega mikilvægt að halda áfram að belgja út þetta kerfi svoleiðis að það er orðið eins og skrímsli í samfélaginu (Forseti hringir.) og á nánast allt sem hægt er að eiga í okkar eigin samfélagi og við erum farin að keppa við okkur sjálf sem eigum þessa ágætu sjóði.