149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[22:44]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég veit ekki hvað maður getur sagt. Það er jú búið að eyrnamerkja þessa 2,9 milljarða í að sparka bara tvisvar í öryrkjanna í staðinn fyrir þrisvar, eins og minn ágæti varaformaður Flokks fólksins sagði í ræðustóli í dag. Þetta „afnám“ krónu á móti krónu er náttúrlega sárara en tárum tekur. Þegar við tölum um dómsmál og tölum um allt þá er það hvernig níðst er á þessu fólki sárara en tárum tekur. Ég á eiginlega orðið erfitt með að tala um það og veita ríkisstjórninni aðhald eða hvaðeina og vísa í Vinstri græna sem ekki láta sjá sig hér. Er það eitthvað ólíklegt?

Hæstv. forsætisráðherra, formaður Vinstri grænna, sagði fyrir ekki tveimur árum síðan að fátækt fólk gæti ekki beðið lengur eftir réttlæti. Það er nákvæmlega það sem fátækt fólk er að gera í umboði hennar sem skipstjóri á skútu ríkisstjórnarinnar. Hversu lengi mun það bíða eftir réttlæti, hæstv. forseti? Það er í valdi ríkisstjórnarinnar að reyna að koma því á hreint.

Alveg sama hversu bjartsýnn maður er og reynir að vera brosandi í gegnum þennan brimskafl sem við erum að berjast við í ræðustóli Alþingis þá hef ég ekki getað séð í gegnum tíðina að það sé nokkur einasti vilji til þess virkilega að taka utan um þá þjóðfélagshópa sem ég er að berjast fyrir hér og nú. Þannig að maður segir bara: Hvert lítið skref, jafnvel þótt aumt sé, er skref í rétta átt. Hvers vegna er ekki gert meira? Ég get ekki svarað því. Ef ég fengi að ráða er alveg á hreinu að forgangsmálin og forgangsröðun verkefna væri svolítið mikið öðruvísi á mörgum sviðum.