149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[23:30]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrir andsvarið. Til að svara fyrri spurningunni fyrst, hvort ég telji ásættanlegt að auka skuldsetningu ríkisins til að ýta áfram opinberum framkvæmdum er svarið við því: Já. Þá er ég að horfa til þess að um sé að ræða arðbærar fjárfestingar. Við horfum á eftir greiningu í vinnu við samgönguáætlun sl. haust, við höfum Sundabraut, Suðurlandsveginn, Vesturlandsveginn, Reykjanesbraut og fleiri stórverkefni sem án nokkurs vafa myndu falla undir það að vera arðsamar, bæði fjárhagslega og síðan fengjum við í bónus fækkun slysa og bætt umferðarflæði. Ég held því að það sé margra hluta vegna mjög áhugavert að nálgast mál þannig að setja sig ekki í þá spennitreyju fyrir fram að ekki sé fær leið að auka skuldsetningu, hvort sem það er í ríkissjóði, opinberu hlutafélagi eða með einhvers lags rekstrarsamningi við fyrirtæki eins og Spölur var og er, svo dæmi sé tekið.

Síðan að seinni spurningunni um skattalækkanirnar. Ég hef haldið óteljandi ræður í þessum ræðustól um nauðsyn þess að lækka tryggingagjald á fyrirtæki og ég er enn óbreyttrar skoðunar, ég tel að skynsamlegt væri að halda áfram á þeirri vegferð sem hefur gengið allt of hægt hvað lækkun tryggingagjaldsins varðar. Síðan er mjög afmarkað dæmi sem ég held að sé orðað þannig í fjárlögum, ég verð að viðurkenna að ég fletti því ekki upp en það var sagt í umræðunni fyrr í dag að ferðaþjónustan byggi við skattameðlag upp á eina 24–27 milljarða, ef ég man tölurnar rétt, og þá held ég t.d. að það væri skynsamleg merkjasending núna (Forseti hringir.) út til ferðaþjónustunnar að þeir hlutir kæmu ekki til endurskoðunar í bráðina.