149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[23:34]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrir. Við erum allir Miðflokksmenn inn við beinið. Eitt af stefnumálum okkar í kosningabaráttunni var einmitt að útfæra sérstaka leið gagnvart fyrirtækjum með tíu starfsmenn og færri, sérútfærslu varðandi persónuafsláttinn þannig að það kæmi sérstök lækkun gagnvart fyrstu tíu starfsmönnum hvers fyrirtækis. Ég er svo sannarlega opinn fyrir frekari vangaveltum í þeim efnum.

Lítil fyrirtæki eru auðvitað hryggjarstykki hins íslenska efnahagslífs og fjöldinn er meira og minna allur að störfum í því sem skilgreinast sem örfyrirtæki á alþjóðavísu en eru lítil og millistór á okkar vísu. Ég held að margra hluta vegna sé skynsamlegt að reyna að lækka byrðarnar sérstaklega á slík félög og ánægjulegt að fá tækifæri til að rifja upp (Forseti hringir.) þetta kosningaplan Miðflokksins.